Grunar töluverða minnkun jökla þetta árið

Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var …
Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var jökullinn var hættur að skríða undan eigin þunga. mbl.is/RAX

„Það eru búnar að vera miklar leysingar vegna þess hvað það hefur verið hlýtt,“ segir Finnur Pálsson, verkefnastjóri í jöklarannsóknum við Jarðvísindastofnun Háskólans, í samtali við mbl.is um stöðuna á jöklum Íslands eftir sumarið. Hann segist hafa grun um að jöklarnir hafi minnkað þetta árið.

Finnur Pálsson, verkefnastjóri jöklarannsókna við Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands.
Finnur Pálsson, verkefnastjóri jöklarannsókna við Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Finnur nefnir að mjög mikil leysing hafi verið fyrir tæpum tveimur vikum þegar það var hlýtt og hvasst.

„Á móti kemur að sumarið var óvenjulegt af því það var svo mikið hægviðri og lítið um að ryk færi af hálendinu upp á jöklana en rykið ræður eiginlega mestu um hvað mikið leysir,“ segir Finnur og bætir við að því er óljóst hver staða jöklanna sé nú í raun og veru. Í október verður afkoma þeirra mæld.

Leysing í meira lagi í Grímsvötnum

„Um það bil 80% af leysingunni á jöklunum er vegna geislunar sólar og því dekkri sem jökullinn er því meira gleypir hann af orkunni úr sólargeislunum. Við vitum því ekki alveg hvar við stöndum núna,“ segir Finnur og nefnir að Vatnajökull hefur verið óvenjulega hreinn í allt sumar vegna hægviðris og lítið um norðanáttir.

„Ég veit þó fyrir víst að það er í meira lagi leysing í Grímsvötnum,“ segir Finnur en þar er mælir sem hann getur lesið af.

Spurður hvort jökulhlaupið í Skaftá hafi áhrif á afkomu Vatnajökuls segir Finnur það vera mjög lítið.

„Auðvitað hefur það einhver áhrif en vatnið sem fer þarna niður er annars vegar vatn sem bráðnar vegna jarðhita við botninn og hins vegar vatn sem kemur af yfirborði og fer inn í katlanna.“

Þurft að þola tap meira eða minna frá 1995

Finnur hefur fylgst með þróun jöklanna í fjölda ára og segir hann að þeir hafi þurft að þola tap flest ár frá árinu 1995.

Finnur hefur fylgst með þróun jöklanna í fjölda ára.
Finnur hefur fylgst með þróun jöklanna í fjölda ára. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru auðvitað frávik, það komu nokkur jákvæð ár en hraðast tapið var frá 1995 til 2010. Árið 2010 var mjög mikil leysing af tveimur ástæðum. Annars vegar var alveg afburða hlýtt og hins vegar vegna þess að í lok eldgossins í Eyjafjallajökli þá dreifðist örþunn aska yfir alla jöklanna. Það leysti því ofboðslega af efri hluta þeirra sem vanalega leysir lítið.“

Eldgos að vori hefur mikil áhrif

Finnur segir að eldgosin geti haft þessi áhrif ef að aska sest á yfirborð jöklanna snemma vors eða um sumarið. „Það getur haft mjög mikil áhrif á hvað gerist næst.“

Hann nefnir að árið 2011 þegar gaus í Grímsvötnum var kalt en samt var mjög mikil leysing á vestanverðum Vatnajökli en vegna kuldans munaði það ekki miklu fyrir afkomu jökulsins.

Hvaða áhrif hefði það á jöklanna ef það færi að gjósa í Öskju?

„Ef það myndi gjósa núna fljótlega þá myndi það hafa frekar lítil áhrif af því að askan úr því gosi myndi grafast undir vetrarsnjóinn. Það er í raun ekki fyrr en á vorlagi sem þetta getur farið að hafa verulega mikil áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert