Líðan drengsins stöðug

Alls liggja nú sex á spítala vegna Covid-19.
Alls liggja nú sex á spítala vegna Covid-19. mbl.is/Unnur Karen

Unglingsdrengur liggur nú á Landspítala eftir að hafa sýkst af Covid-19 sjúkdómnum. Er þetta í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins sem barn hefur verið lagt inn á spítala hérlendis vegna veirunnar. 

Í frétt mbl.is í morgun var greint frá því að sex einstaklingar lægju inni á spítala vegna kórónuveirusýkingar. Seinna í dag greindi RÚV frá því að einn sjúklinganna væri drengur á unglingsaldri.

Í samtali við mbl.is segir Valtýr Stefán Thors, læknir á Barnaspítala hringsins, að líðan drengsins sé stöðug og ekki sé útlit fyrir að hann þurfi langa innlögn eins og staðan er núna.

Segir hann tilfellið leiðinlegt en þó hafi verið viðbúið að á einhverjum tímapunkti faraldursins myndi barn leggjast inn á spítala vegna veirunnar.

„Þetta er eitthvað sem mátti alveg búast við að myndi gerast fyrr eða síðar, við höfum svona verið að bíða eftir þessu. Þetta kom í sjálfu sér ekkert endilega á óvart. [...] Þegar fjöldi barna sem hafa greinst safnast upp kemur tölfræðilega að því að einhver þarf að leggjast inn. Það hefði getað verið í fyrstu bylgjunni en alveg eins þessari,“ segir Valtýr. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka