Hefði getað farið mjög illa

Svona var aðkoman á Siglufjarðarvegi í morgun.
Svona var aðkoman á Siglufjarðarvegi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Vegagerðin sá um að hreinsa upp grjót sem féll á Siglufjarðarveg í morgun en veginum var lokað á meðan. 

Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðurlandi, segir í samtali við mbl.is að grjóthrun á svæðinu sé ekki nýtt af nálinni. Hann segir að mjög illa hefði getað farið ef bíll hefði verið á veginum þegar grjóthrunið varð.

„Grjóthrun getur alls staðar fallið þar sem eru svona brattar hlíðar. Þetta er engin nýlunda þarna á þessari leið. Það sem maður óttast eiginlega mest eru þessir þurrkar sem hafa verið í sumar. Þegar fer að koma einhver væta í jarðveginn og bergið þá geta svona hlutir gerst.“

Þrjár til fjórar eftirlitsferðir farnar á dag

Gunnar segir að Vegagerðin sé með viðbragsáætlun í gildi varðandi svona atvik. „Þetta er alltaf á gulu hjá okkur sem þýðir að það er farin ein eftirlitsferð á hverjum degi um þetta svæði inn í Fljót. Þegar svona atburðir koma upp, samkvæmt okkar viðbragðsáætlun, þá er eftirlitsferðum fjölgað og við förum þrjár til fjórar ferðir á dag.“

Hann segir að ef mikilli úrkomu er spáð eða það verði jarðskjálftar þá er hættumatið hækkað á hættustig tvö og veginum er lokað.

Grjótið hrundi niður hlíðina eins og sést glöggt á myndinni.
Grjótið hrundi niður hlíðina eins og sést glöggt á myndinni. Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvort það megi búast við því á næstunni segir Gunnar svo ekki vera. „Ég get ekki sagt til um það. Grjóthrunið í dag virðist vera staðbundið á myndum að dæma og á því sem ég hef heyrt frá mínu fólki.“ Hann segir að berghilla lengst upp i í fjalli hafi hrunið í morgun.

Fyrir ofan leiðina eru engir varnargarðar. „Ef það ætti að gera eitthvað til þess að verjast svona grjóthruni þá yrðum við að ráðast í geysilega stórar og dýrar framkvæmdir. Menn eru að hugsa til jarðganga sem framtíðarlausn þarna. Það er ekki flóknara en það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert