„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupaukagreiðslu“

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.
Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. mbl.is/Sigurður Bogi

Kristrún Frosta­dótt­ir, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður, seg­ist ekki hafa fengið eina krónu í kaupauka­greiðslu frá Kviku held­ur hafi hún sjálf ásamt eig­in­manni sín­um nýtt eig­in sparnað þegar hún kom heim úr námi og keypt hluti í bank­an­um. Kristrún var aðal­hag­fræðing­ur bank­ans, en í pistli sem birt­ur er und­ir heit­inu Óðinn í síðasta Viðskipta­blaði var greint frá því að Kristrún hefði fengið tuga millj­óna úr kaupauka­greiðslum hjá Kviku.

Kristrún grein­ir frá þessu í færslu á Face­book, en þar seg­ir hún að umræðan um þessi mál­efni bygg­ist á póli­tísk­um grund­velli þar sem eigi að keyra sig niður með smjörklípu og óhróðri og gera lítið úr jafnaðarmanna­skoðunum henn­ar.

Nýttu sparnaðinn til að kaupa í Kviku

Fram kem­ur í færslu henn­ar að upp­hæðin sem hún og maður­inn henn­ar fjár­festu fyr­ir hafi verið fjár­hæð sem þau munaði mikið um. „Þarna erum við hjón­in ný­kom­in úr námi og vinnu, með lítið á milli hand­anna, en tók­um þá ákvörðun um að leggja í þessa fjár­fest­ingu,“ seg­ir Kristrún.

Tek­ur hún fram að ef verð bréf­anna hefði lækkað hefðu þau tapað á fjár­fest­ing­unni. Hins veg­ar hafi fjár­fest­ing­in komið vel út, en hluta­bréf Kviku hækkuðu mikið frá þeim tíma sem hún hóf þar störf.

„Ég fékk ekki 1 kr. í kaupauka­greiðslu frá Kviku og borgaði fyr­ir mína eig­in fjár­fest­ingu í fé­lag­inu takk fyr­ir mig. Fjár­fest­ing sem kom vel út, eins og marg­ar fjár­fest­ing­ar á hluta­bréfa­markaði und­an­far­in ár. Síðast þegar ég vissi mega fleiri en Sjálf­stæðis­menn taka þátt á hluta­bréfa­markaði.“

Mín kaup eru ekki til rann­sókn­ar

Þá seg­ir hún Viðskipta­blaðið reyna að tengja þetta mál við rann­sókn Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á kaupauka­kerfi Kviku. „Mín kaup eru ekki til rann­sókn­ar, þessi fjár­fest­ing, né ég. Þetta hef­ur ná­kvæm­lega ekk­ert með mig að gera. Ég hef borgað mína skatta af þess­ari fjár­fest­ingu sem ég borgaði fyr­ir og er í raun ekki í stöðu til að ákv­arða hversu mikla skatta ég greiði af því. Ég er nefni­lega ekki með mín­ar fjár­fest­ing­ar í sér­stöku fé­lagi þar sem ég skammta mér fjár­magn,“ seg­ir Kristrún.

Þá seg­ir hún að vegna þess að hún hafi átt aukið fjár­magn til að fjár­festa viti hún „hvernig fjár­magn get­ur ein­mitt af sér meira fjár­magn“ og því sé hún stuðnings­kona þess að skatt­leggja skuli fjár­magn meira.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka