Meirihluti þjóðarinnar hefur breytt venjum sínum mikið til að forðast kórónuveirusmit frá því að faraldurinn hófst á síðasta ári. Algengustu breytingar hjá fólki virðast tengjast handþvotti og spritti, ásamt því að notkun á hlífðarbúnaði hefur aukist.
Þá er fólk einnig varara um sig í stærri samkomum og hvernig það heilsar, en dregið hefur úr faðmlögum, handaböndum, kossum og knúsum.
Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup sem var gerður til að kanna viðhorf almennings gagnvart ýmsum þáttum sem tengjast kórónuveirufaraldrinum, ásamt hegðun og þróun yfir tíma. 804 tóku þátt í könnuninni á aldrinum 18 ára eða eldri.
Um 60% svarenda könnunarinnar sögðust hafa breytt venjum sínum frekar eða mjög mikið til að forðast smit en einungis 20% sögðust hafa breytt venjum sínum frekar eða mjög lítið. Þá sögðust 20% hafa breytt venjum sínum hvorki mikið né lítið og 2% tók ekki afstöðu.
Um 87% svarenda sögðust þvo og spritta hendur sínar oftar og betur en áður og 81% sögðust nota hlífðarbúnað á borð hanska og grímur í ákveðnum aðstæðum. 76% sögðust nú forðast handabönd í meira mæli og 74% hósta og hnerra síður út í loftið.
Íslendingar eru einnig farnir að vera meira varir um sig í stærri samkomum en 60% forðast fjölfarna staði og/eða fjölsótta viðburði. 46% töldu sig forðast að eiga óþarfa samskipti við annað fólk, 17% versla frekar á netinu og 15% vinna heiman frá sér að hluta til eða öllu leyti.
Hvað varðar traust til yfirvalda taldi yfirgnæfandi meirihluti svarenda treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi í baráttunni við Covid-19.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 30% svarenda treysta þeim fullkomlega, 39% mjög vel og 22% frekar vel. Einungis 3% sögðust treysta þeim frekar eða mjög illa og 1% alls ekki. 1% tók ekki afstöðu og 6% sögðust treysta þeim hvorki vel né illa.
Ekki jafn mikið traust er að finna gagnvart ríkisstjórninni en samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar treysta 11% þeim fullkomlega, 23% mjög vel og 30% frekar vel. Þá treysta 11% þeim frekar illa, 6% mjög illa og 2% alls ekki. 1% tók ekki afstöðu og 17% sögðust treysta þeim hvorki vel né illa.
Skiptar skoðanir var að finna meðal þjóðarinnar hvað varðar áhyggjur af heilsufarslegum- og efnahagslegum afleiðingum faraldursins.
35% svarenda töldu sig hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum Covid-19 á Íslandi. Þá sögðust 36% svarenda hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur. 29% sögðust hvorki hafa miklar né litlar og 1% tók ekki afstöðu.
Svipuð hlutföll var að finna hvað varðar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum sem faraldurinn kann að hafa í för með sér en 38% svarenda töldu sig hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur. Þá höfðu 31% svarenda frekar eða mjög litlar áhyggjur og 31% hvorki miklar né litlar. 2% tóku ekki afstöðu.