Niðurstaða Hæstaréttar sé skýr

Atli Rafn Sigurðarson leikari og leikstjóri.
Atli Rafn Sigurðarson leikari og leikstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Dómurinn staðfestir það sem við höfum haldið fram frá upphafi, að brotið var á Atla þegar þessi ákvörðun var tekin,“ segir Einar Þór Sverrisson, lögmaður leikarans Atla Rafns Sigurðarsonar, í samtali við mbl.is.

Hæstirétt­ur Íslands hefur dæmt Leik­fé­lag Reykja­vík­ur til að greiða Atla Rafni 1,5 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur ásamt þrem­ur millj­ón­um króna í máls­kostnað.

Einar segir niðurstöðu Hæstaréttar skýra um það að þeim reglum sem átti að fylgja hafi ekki verið fylgt.

„Dómurinn snýst um að það er ekki hægt að taka fólk af lífi án þess að fylgja þeim reglum sem um það gilda, sem var ekki gert og Hæstiréttur staðfesti það,“ segir Einar.

Var heimilt að segja Atla upp en viku frá skráðum hátternisreglum

Í dómi Hæsta­rétt­ar kem­ur fram að Leik­fé­lagi Reykjavíkur hafi al­mennt séð verið heim­ilt að segja upp samn­ingi við Atla Rafn í sam­ræmi við þær meg­in­regl­ur sem gilda á al­menn­um vinnu­markaði.

Aft­ur á móti hafi fé­lagið vikið í grund­vall­ar­atriðum frá þeim skráðu hátt­ern­is­regl­um sem það hefði átt að fara eft­ir við mat á fram­komn­um ásök­un­um á hend­ur Atla Rafni þótt upp­sögn­in væri beint tengd þeim.

Síðastliðið vor var greint frá því að Atli Rafn fengi að áfrýja til Hæsta­rétt­ar máli sínu gegn Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur vegna upp­sagn­ar hans frá Borg­ar­leik­hús­inu í des­em­ber árið 2017. Hins veg­ar fékk hann ekki að áfrýja sam­bæri­legu máli gegn Krist­ínu Ey­steins­dótt­ur leik­hús­stjóra. Bæði leik­fé­lagið og Krist­ín voru sýknuð af kröf­um hans í Lands­rétti. Í héraðsdómi voru hon­um aft­ur á móti dæmd­ar 5,5 millj­ón­ir króna í bæt­ur. 

Ágrein­ing­ur máls­ins laut að því hvort rétt hefði verið staðið að upp­sögn­inni og ef svo væri ekki, hvort Atli Rafn ætti rétt til bóta fyr­ir fjár­tjón og miska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert