Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að heimsfaraldurinn hafi spilað inn í og haft áhrif á gengi flokksins í nýafstöðnum alþingiskosningum.
„Í venjulegu árferði held ég að þjóðin átti sig á því að það þurfi að gera miklar breytingar á ýmsu hjá okkur en Covid hafi leikið býsna stórt hlutverk hjá okkur núna.“
Skoðanakannanir bentu til þess að fylgi Samfylkingarinnar yrði meira en kom á daginn. Logi segist hafa fundið talsverðan meðbyr og að flokkurinn hafi ætlað sér meira.
„Ég hugsa að þegar þjóðin er búin að ganga í gegnum eitt og hálft ár í Covid, hafi hún ekki lagt í nema það sem hún þekkti þegar hún kom í kjörklefann, þótt hún væri tilbúin að gefa okkur svörun í skoðanakönnunum.“
Logi bendir á að stjórnmál séu ekki skammtímakeppni, heldur eilífðarverkefni. Samfylkingin sé með góða grunnstefnu sem höfði til þjóðarinnar, en þurfi þó að finna leiðir til að miðla henni betur og skapa meiri stuðning við hana.
„Þjóðin ákveður og við sýnum því auðmýkt og virðum það, erum með sprækan og reynslumikinn þingflokk sem er tilbúinn í verkefni kjörtímabilsins.“
Íslenska flokkaflóran er fjölbreytt að mati Loga, en þeir taka hver af öðrum.
„Mér finnst brýnasta verkefnið að fólk sem aðhyllist félagshyggju, jöfnuð og réttlæti, samstilli krafta sína. Það er flóknara þegar Vinstri græn, okkar pólitísku nágrannar, hafa verið hinum megin við línuna.“
Logi bendir á að eitt kjörtímabil sé afar stutt í lífi þjóðar og kveðst því bjartsýnn þrátt fyrir allt. „Við munum finna okkur kraft og vopn fljótlega og rísa upp í fyllingu tímans.“