Fjöldi lítilla skjálfta hefur mælst skammt suðvestur af fjallinu Keili á Reykjanesskaga undanfarinn sólarhring. Töluverð hrina gekk yfir í nótt en hún hófst í kringum miðnætti.
Stærsti skjálftinn í hrinunni til þessa hefur mælst 2,5 að stærð. Þetta má sjá á skjálftakorti Veðurstofunnar.
Blaðamaður mbl.is hafði kortið fyrir augum þegar hann sló á þráðinn til Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í morgun. Hann svaraði og kvaðst um leið vera að horfa á það sama.
„Skjálftavirkni hefur verið óvenjulega lítil meðan á gosinu hefur staðið, svo að þetta er kannski endurhvarf til fyrra lífs á Reykjanesskaga,“ segir Páll.
„Það eru einhverjar spennubreytingar í gangi, en það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað það er.“
Spurður hvort hrinan sé ef til vill til marks um kvikuinnskot segist hann telja það ólíklegt.
„Þetta er í raun og veru gamli kvikugangurinn sem er að gera vart við sig þarna. Hann kom og var sem sé undanfari gossins. Annaðhvort er þetta bara hann að jafna sig, eða þá að það eru einhverjar aðrar sprennubreytingar sem eru loksins farnar að taka sig upp á skaganum,“ segir Páll.
„Það er bara búið að vera með eindæmum rólegt á öllum Reykjanesskaga, meðan á gosinu hefur staðið. En nú er gosið búið að liggja niðri í nokkra daga og það kann að tengjast við þetta hérna.“
Páll bendir á að stundum sé tímabundið aukin skjálftavirkni tákn um að endalok goss séu í nánd.
„Eða þá eftir að gosi lýkur, þá kemur stundum svona smá skjálftavirkni sem bendir til spennubreytinga í tengslum við lok goss. Þannig að þetta getur táknað ýmislegt og of snemmt að segja nokkuð ákveðið um það, hvort þetta er breyting á gosinu, lok þess eða eitthvað þess háttar.
En þetta eru auðvitað virk flekaskil og flekarnir halda áfram að hreyfast. Þótt gosi ljúki og gos byrji, þá halda flekahreyfingar áfram.“
Þegar gosið liggur niðri eins og það gerir núna, er þá ekki mögulegt að kvikan byrji að brjóta sér leið upp annars staðar?
„Það er vissulega einn af möguleikunum, að það sé breyting á gosopinu, sem sé breyting á gosinu sjálfu. En það er sennilega líklegra að þetta tákni einhvers konar lægð í gosinu eða jafnvel endi á gosi. Þannig það eru ýmsar sviðsmyndir uppi og of snemmt að segja til um hver þeirra er í gangi.“