Líst ekki á jöfnunarsætisþingmenn í kjörbréfanefnd

Willum Þór Þórsson starfandi forseti Alþingis.
Willum Þór Þórsson starfandi forseti Alþingis. Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson, starfandi forseti Alþingis, segir þingið ekki geta aðhafst neitt fyrr en landskjörstjórn úthluti þingsætum. Hann segir að það væri „óhyggilegt“ að skipa jöfnunarsætisþingmenn í undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis og að þingið verði ekki kallað saman í neinu flýti.

„Nú er málið ennþá í höndum landskjörstjórnar og alveg fram að því að fundinum þeirra á föstudaginn klukkan fjögur. Það sem gerist næst er að starfandi þingforseti getur kallað eftir tilnefningu flokkanna í svokallaða undirbúningskjörbréfanefnd sem undirbýr álit fyrir kjörbréfanefnd sem verður kjörin á þingsetningardegi.“

Undirbúningskjörbréfanefnd ekki nýtt fyrirbæri

Willum segir undirbúningskjörbréfanefndina ekki nýmæli en að kjörbréfanefndin sé iðulega skipuð þeim sömu og séu í undirbúningskjörbréfanefndinni. Hins vegar sé ekki hægt að skipa kjörbréfanefnd fyrr en þing komi saman en það er jafnframt verkefni fyrsta fundar þingsins samkvæmt 1. gr. þingskaparlaga.

Sem starfandi forseti Alþingis segist Willum ætla að kalla eftir tilnefningum um leið og niðurstöður landskjörstjórnar liggi fyrir: „Bara um leið og málið er komið til þingsins. Þá get ég kallað formlega eftir tilnefningum, við ætlum ekki að bíða neitt heldur taka þétt utan um þetta mál.“Hann áætlar að nefndin geti þá hafið störf strax á mánudegi.

Spurður hvort jöfnunarsætisþingmenn, sem hefur nokkrum verið skipt út vegna vankanta á talningu, geti tekið sæti í undirbúningskjörbréfanefndinni segir Willum það ekki hyggilegt: „Það væri nú held ég óhyggilegt, ég á ekki von á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert