Steinar Ingi Kolbeins
Vefur landskjörstjórnar er kominn í loftið á ný en líkt og mbl.is greindi frá í dag lá vefurinn niðri um stund. Ástæðan var tæknivandi hjá aðkeyptri þjónustu.
Í samtali við mbl.is fyrr í dag vissi Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, ekki hvað varð til þess að vefurinn lægi niðri en kvaðst hún þó ætla að reyna að komast til botns í málinu.
Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritstjóri og ritari landskjörstjórnar, segir í samtali við mbl.is að þjónusta sem Alþingi notast við og heitir „Let´s Encrypt“ hafi „skipt um rótarskilríki“ nú í mánuðinum og því hafi ýmis hugbúnaður ekki meðtekið þær breytingar rétt og það olli vandræðum á vefnum.
Líklegt verður að teljast að vefur landskjörstjórnar, sem alla jafnan er ekki fjölsóttur, þurfi að takast á við meiri umferð nú en oft áður vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í kjölfar talninga atkvæða í norðvesturkjördæmi en liggur nú fyrir að það var ekki skýring vandans.
„Við vonum bara að það verði ekki frekari truflanir vegna þessa,“ segir Laufey að lokum.