„Enginn ásetningur uppi um að blekkja fólk“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður nýsköpunarráðs Reykjavíkurborgar.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður nýsköpunarráðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður nýsköpunarráðs Reykjavíkurborgar, segir að það sé áhugavert að sjá Samtök iðnaðarins (SI) á þeirri vegferð sem samtökin séu á. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sakaði Dóru um lygar í viðtali við Morgunblaðið í dag. 

Hann segir að það sé lygi hjá Dóru, sem sagði í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í gær að borgaryfirvöld hafi fundað með SI um stafræna umbyltingu borgarinnar. 

Dóra segir að það sé misskilningur. Þegar fólk ljúgi sé það að segja ósatt með einbeittum vilja og að svo hafi ekki verið í hennar tilfelli. 

„Lygi hlýtur að þýða einhver ásetningur og það var enginn ásetningur uppi um að blekkja fólk,“ segir Dóra við mbl.is og bætir við:

„Það er áhugavert að sjá Samtök iðnaðarins og þá vegferð sem þau eru á. Þau hafa sjálf slegið upp kolrangri mynd af stafrænni byltingu borgarinnar sem er kveikja umræðunnar sem er á villigötum.

Málið allt einn misskilningur

Dóra segir að raunar hafi ekki bara misskilningur ráðið því að hún fór dagavillt um fyrirhugaðan fund borgaryfirvalda með SI, heldur sé málið allt einn misskilningur. Þannig segir hún að margir haldi að ekki eigi að kaupa neitt af stafrænu vegferðinni af aðilum á markaði og fyrirætlanir borgarinnar séu að „sópa öllu tæknimenntuðu fólki af markaði“. 

Það segir hún af og frá og bendir á að borgaryfirvöld ætli að verja að minnsta kosti tæpum átta milljörðum af alls 10 í útboð og útvistun til einkarekinna fyrirtækja og einstaklinga. 

„Við erum í rauninni að kaupa langmest inn og við erum ekkert að fara þá leið bara af því bara, við erum að gera þetta vegna þess að við leituðum til leiðandi aðila á markaði, banka, tryggingafélaga og sérfræðinga innanlands og utan. Og við erum að fara sömu leið og þessir aðilar eru að fara, þessi leiðandi fyrirtæki á markaði. Við erum þannig að fara leið sem byggist á ítarlegum greiningum á kostnaði og áhættu og við erum ekkert að taka upp þessa aðferð hjá sjálfum okkur.“

7,7 af 10 milljörðum fari í útboð og innkaup

Eins og Dóra rekur í stöðuuppfærslu á Facebook vegna málsins er borgin, að hennar sögn, að starfa með aðilum á markaði þó svo að einhver hluti verkefnisins fari fram innanhúss hjá borginni. 

Í stöðuuppfærslunni segir meðal annars:

„Langstærsti hluti stafrænu umbreytingarinnar fer í opinber innkaup og útboð eða að minnsta kosti 7,7 milljarðar af 10 milljörðum í heildina og enn stærra hlutfall á þessu ári. Okkar forgangsmál er að fara vel með almannafé og niðurstaða okkar greininga sýnir að þessi blandaða leið er hagkvæmust. Við kynntum okkur hvernig leiðandi fyrirtæki á markaði, bankar og tryggingafélög eru að gera þetta og erum að fara sömu leið. Að útvista upplýsingatækniþjónustu og ýmsum þáttum en hafa þróunarvinnu, samþættingu og samhæfingu innanhúss er niðurstaða umfangsmikilla greininga á kostnaði og áhættu eftir samráð við ráðgjafa innanlands og utanlands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka