Kórónuveirusmit greindist hjá barni á leikskólanum Reykjakoti í Mosfellsbæ og þurfa foreldrar barna á deildunum bláa og rauða kjarna í Stórakoti, börnin sjálf og starfsfólk að fara í sóttkví.
Þetta segir í tölvupósti leikskólastjóra Reykjakots til foreldra.
„Kæru foreldrar. Barn á Reykjakoti hefur greinst með Covid-19. Ég hef verið í samskiptum við foreldra og smitrakningateymið og öll börn á Stórakoti eru komin í sóttkví ásamt starfsfólki á Bláa- og Rauðakjarna,“ segir í póstinum, sem var sendur í gær.
Þar segir einnig að börn, foreldrar og starfsfólk annarra deilda þurfi ekki í sóttkví samkvæmt leiðbeiningum smitrakningateymisins. Það eru börn á gula og græna kjarna í Litlakoti. Því haldi skólastarf á þeim deildum óskert áfram.
Þá hafa allir þeir sem hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti verið boðaðir í sýnatöku á sjönda degi frá því það gerðist og mun sóttkví þeirra ljúka þegar neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir.
Minnst fimmtíu börn og átta starfsmenn eru á deildunum tveimur sem hefur nú verið lokað á meðan smitrakningarteymið vinnur úr upplýsingum.
Barninu sem smitaðist heilsast vel, að sögn Þórunnar Óskar Þórarinsdóttur leikskólastjóra Reykjakots.