Telur vörn bóluefnis gegn malaríu takmarkaða

Ung stúlka fær lyf við malaríu á spítala í Búrkína …
Ung stúlka fær lyf við malaríu á spítala í Búrkína Fasó. AFP

Gestur Viðarsson, doktor í ónæmisfræði, telur nýtt bóluefni gegn malaríu, sem og flest bóluefni í heiminum, ekki örva ónæmiskerfið á réttan hátt. Segir hann að við þróun bóluefna hafi hingað til verið litið fram hjá mikilvægum þætti í ónæmiskerfi okkar sem geri það að verkum að vernd bólusetninga sé nokkuð takmörkuð.

Greint var frá því í gær að Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefði heimilað dreifingu á bóluefninu RTS,S við malaríu. Stefnir nú í bólusetningarherferð um alla Afríku.

Spurður hvort hann telji Alþjóðaheilbrigðisstofnun hafa farið of geyst með að heimila dreifinguna segir hann ekki svo vera. „Auðvitað bráðvantar bóluefni gegn malaríu. Það hafa margir reynt en eins og staðan er í dag og margir vita þá er ekki til neitt algilt bóluefni gegn malaríu. Þetta er fyrsta bóluefnið sem er að gera eitthvað gagn en það er ekki hundrað prósent.“

Að sögn Gests verndar bóluefnið einungis gegn fyrsta stigs malaríusýkingum en ekki alvarlegri sýkingum. „Það eru 30% minni líkur á dauðsföllum ef að það kemst á þetta alvarlega stig ef að þú ert bólusettur. Það vantar enn þá upp á það að vernda gegn þessari malaríu sýkingu, það er á þessu stigi þegar sníkjudýrið kemst í rauðublóðkornin. Þá þarf ónæmiskerfið okkar sjálft að vernda gegn þessu.“

Telur hann lausnina á vandamálinu felast í rannsóknum á sykrun mótefna.

Hafa litið fram hjá mikilvægi fúkósa í mótefnum

Gestur vinnur við Sanquin blóðrannsóknastofnunina og Háskólasjúkrahúsið í Amsterdam og leiðir þar rannsóknarteymi. Hafa rannsóknir þeirra síðustu ár leitt í ljós mikilvægi þess að taka mið af rofa sem er hluti af sykru í mótefninu og heitir fúkósi.

Rofinn var uppgötvaður fyrir tilviljun fyrir um 20 árum en það var þó ekki fyrr en nokkrum árum seinna sem vísindamenn, með Gest og rannsóknarhóp hans í fararbroddi, gerðu sér grein fyrir mikilvægi hans. Hafa þau unnið hörðum höndum síðustu 15 árin að leggja betri grundvöll fyrir þessu fyrirbæri sem afar erfitt er að rannsaka, þar sem m.a. vantar betri tól og tæki.

 „Allar tilraunir til dagsins í dag til þess að búa til bóluefni gegn malaríu, og eiginlega flest öll bóluefni í heiminum í dag, eru bóluefni sem að kveikja ekki á þessum rofa og eru ekki að líkja eftir hvernig ónæmiskerfið sér svona ónæmisvaka á yfirborði fruma.“

Gestur Viðarsson, doktor í ónæmisfræði.
Gestur Viðarsson, doktor í ónæmisfræði. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að bóluefni taki mið af fúkósa

Segir Gestur afar mikilvægt að þróun bóluefna taki mið af þessum fúkósa enda skipti það sköpum varðandi betri vernd gegn sjúkdómum.

„Bóluefnin sem við notum aðallega í dag eru prótein bóluefni, þau taka ónæmisvakann úr samhengi. Þegar það gerist þá myndar ónæmiskerfið í raun mjög saklaust mótefni sem ekki eru nægjanlega virk. 

Þetta er í raun og veru einsleitur hópur bóluefna sem setur mótefni af stað sem virkar í flestum tilfellum en ekki í svona erfiðum sýkingum eins og HIV og malaríu. Það er vegna þess að það er verið að setja mótefnin í gang án þessara sykurrofa, án þessara fúkósa sem gera ákaflega mikið.“

Þann 5. október birtist grein á vegum rannsóknarhóps Gests í Nature Communication þar sem farið er yfir hvers vegna bóluefni hingað til vernda ekki gegn malaríusýkingum á þessu stigi.

Telur rannsóknirnar mikilvægar fyrir HIV bóluefni

Vonast hann nú eftir að niðurstöður rannsókna þeirra munu hafa áhrif á þróun bóluefna. „Það sem við erum að skoða núna er hvernig við eigum að ýta þessu af stað. Við þurfum að setja þessa ónæmisvaka í rétt samhengi og það þarf nýja tegund af bóluefnum til þess að gera það. Það er eitthvað sem er verið að vinna að núna og vonandi eitthvað sem við getum skoðað betur í framtíðinni.“

Gestur ásamt hópi rannsakenda sem tóku þátt í greininni. Fyrsti …
Gestur ásamt hópi rannsakenda sem tóku þátt í greininni. Fyrsti höfundur er danskur doktorsnemi, Mads Larsen, fjórði frá vinstri. Ljósmynd/Aðsend

Telur hann rannsóknir á fúkósa mikilvægan fyrir fleiri bóluefni en bara gegn malaríu, meðal annars HIV og Covid-19. „Þessi rannsókn sem var að koma út núna, hún mun án efa ýta undir það að aðrir fari að skoða þetta líka. Því þetta er okkur mjög mikilvægt. Þetta er ekki bara Covid-19, þetta er ekki bara malaría, þetta er fullt af bóluefnum . Af hverju eru bóluefni t.d. ekki að virka gegn HIV?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert