Bóluefnið ekki notað meðan nóg er til af Pfizer

Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir. Upplýsingafundur almannavarna 21. apríl 2021.
Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir. Upplýsingafundur almannavarna 21. apríl 2021. Ljósmynd/Almannavarnir

Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, segir í samtali við mbl.is að með því að taka bóluefni Moderna úr notkun höfum við „engu að tapa“ en ef við myndum halda því áfram gætum við „kallað yfir okkur vandamál“ og séð eftir því.

Hún segir að þar sem nóg sé til af bóluefni Pfizer hér á landi sé réttast að nota það til örvunarbólusetningar á meðan ekki liggi fyrir gögn um um hvernig hægt sé að nota bóluefni Moderna á sem ábyrgastan hátt.

Það séu gögn frá Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) og Lyfjastofnun Evrópu (EMA) um notkun efnisins í örvunarbólusetningu sem liggja nú fyrir, en hafa ekki enn verið gerð opinber. Þangað til sé réttast að bíða með notkun bóluefnisins.

Mælt með hálfum skammti

„Það eru sumir farnir að mæla með að nota hálfan skammt af bóluefni Moderna við örvunarbólusetningu,“ segir hún og bætir við að örvunarbólusetning sé frábrugðin hefðbundinni bólusetningu.

Kamilla segir að sé litið til gagna EMA, þá séu aukaverkanir eftir örvunarbólusetningu með bóluefni Moderna tíðari en eftir þær sem gerðar eru með bóluefni Pfizer.

Þær séu rúmlega einn af hverjum þúsund hjá Moderna en tæplega einn af hverjum þúsund hjá Pfizer.

Komi fram innan þriggja til fjögurra daga

Kamilla segir að skammtur af bóluefni Moderna hvetji til myndunar meira broddpróteins en Pfizer.

„Það getur verið að það að minnka skammtinn af Moderna nær því sem er í Pfizer myndi líka breyta aukaverkanatíðninni nær því sem er í Pfizer.

Við vitum þetta ekki og þess vegna ætlum við frekar að bíða og safna fleiri upplýsingum heldur en að halda áfram þegar við höfum aðra kosti.“

Spurð hvort þeir sem hlutu bóluefni Moderna í örvunarskammt eftir bóluefni Janssen þurfi að óttast aukaverkanir segir Kamilla að langalgengast sé að alvarlegar aukaverkanir, svo sem hjartabólga, komi fram innan þriggja til fjögurra daga. Gögn frá Bandaríkjunum styðji það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert