Barnavernd Hafnarfjarðar hefur nú í haust fengið til sín óvenju mörg mál þar sem hópur barna hefur beitt annað barn alvarlegu ofbeldi. Er það í samræmi við fjölgun mála sem tilkynnt hafa verið til lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ, líkt og mbl.is greindi frá í gær.
„Við höfum fundið fyrir einhverri aukningu frá því síðla sumars, þar sem fleiri en einn hafa tekið sig saman og ráðist á einhvern,“ segir Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri hjá barnavernd Hafnarfjarðar.
Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði og Garðabæ, sagði í samtali við mbl.is að oft væri um að ræða „ansi grófar“ árásir þar sem jafnvel væri verið að veita höfuðáverka til dæmis með því að sparka í höfuð. Svo virtist sem börnin gerðu sér enga grein fyrir afleiðingunum.
Ef börn eru undir 15 ára aldri og ósakhæf verða ekki úr þung lögreglumál heldur eru mál unnin með barnavernd sveitarfélagsins þar sem þau fara í ákveðið ferli. Ef um er að ræða alvarleg ofbeldismál fer alltaf af stað með könnun og barnaverndarmál er opnað. „Þetta eru ungir krakkar sem eru að beita alvarlegu ofbeldi og þá fer það alltaf í könnun,“ segir Helena um mál sambærileg þeim sem hafa komið upp í haust.
Ef það er tekin ákvörðun um að málið verði kannað hefur barnavernd, lögum samkvæmt, þrjá mánuði til að gera það. „Þá er oftast talað við foreldra og talað við barn og fengnar upplýsingar úr skóla. Þegar könnun er lokið eru allar þessar upplýsingar teknar saman og þá er ákveðið hvort beita á einhverjum úrræðum eða loka málinu.“
Helena segir að í sumum málum sé nóg að það komi tilkynning og könnun fari fram til að tekið sé fastar á á málum heima fyrir. Þá sé í sumum tilfellum hægt að loka málinu hjá þeim. „Við vitum aldrei fyrir fram hvað könnun mun leiða í ljós.“
Bæði lögregla og foreldri sem mbl.is ræddi við töluðu um mikilvægi forvarnarvinnu gegn ofbeldi. „Maður veltir fyrir sér þessu samtali við börnin. Hvar eru foreldrar þessara barna? Eru þeir ekki með neinar upplýsingar um hvað er að gerast? Það er auðvitað besta forvörnin að foreldrar ræði við börn sín,“ sagði Sævar aðalvarðstjóri í samtali við mbl.is.
Helena segir að barnavernd eigi nú í samtali við skólasamfélagið í Hafnarfirði um slíkar forvarnir og rætt hefur verið um að fara með fræðslu inn í foreldrafélög skólanna.