Fá beinan eignarrétt þökk sé landnámi Skalla-Gríms

Landnáma er meðal helstu sönnunargagna í þessu máli um jörðina …
Landnáma er meðal helstu sönnunargagna í þessu máli um jörðina Þórunnartún. Landnáma er elsta heimild um landnám Íslands. mbl.is/Þorkell

Meirihluti Hæstaréttar ógilti í gær ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að landsvæði í Borgarbyggð væri þjóðlenda með vísan til lýsinga í Landnámu á landnámi Skalla-Gríms. Með því staðfesti rétturinn dóm landsréttar um úrskurðinn sem var kveðinn upp árið 2016.

Sjálfseignarstofnunin Ok á nú beinan eignarrétt að landssvæðinu Þóreyjartungum í Borgarbyggð en óbyggðanefnd hafði flokkað það sem þjóðlendu í afréttareigu sjálfseignarstofnunarinnar. Landsréttur sneri þessari niðurstöðu nefndarinnar við í fyrra eftir að héraðsdómur hafði staðfest hann.

Bentu á svipuð landssvæði

Ágreiningurinn sneri meðal annars að því hvort Þóreyjartungur hefðu orðið hluti af jörðinni Hrísum sem gekk á milli Reykholtskirkju og sveitarfélags. Landið hefði heldur ekki orðið að beitarsvæði þar sem tungurnar hefðu ekki verið notaðar sem samafnotaréttur fyrr en þær komust úr eigu Reykholtskirkju.

Hæstiréttur féllst á kröfur Oks meðal annars með tilliti til þess að óbyggðanefnd hafði fallist á að aðliggjandi landssvæðin Lundartunga og Oddstaðatunga  hefðu verið numin í öndverðu og teldust bein eignarlönd. Dómurinn sagði Þóreyjartungur eiga margt sameiginlegt með þessum tveimur aðliggjandi landsvæðum með vísan til staðhátta, hæðar yfir sjávarmáli og gróðurfar:

„Þrátt fyrir að hinar ýmsu gerðir Landnámu af landnámi á þessu svæði séu ekki að öllu leyti glöggar og samrýmanlegar verður sú ályktun dregin af þeim að allar Þóreyjartungur, sem liggja milli Flókadalsár í vestri og norðri og Syðri-Sandfellskvíslar í suðri, eins og þær hafa verið afmarkaðar í máli þessu, hafi í upphafi tilheyrt hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms.“

Þá féllst Hæstiréttur einnig á það að Þóreyjartungur hefðu tilheyrt eignarlandinu Hrísum en sú jörð var seld af Reykholtskirkju, til sveitarfélags og þaðan til Sjálfseignarstofnuninnar Oks. 

Yfirlitsmynd af svæðinu.
Yfirlitsmynd af svæðinu. Skjáskot/West.is

Tveir af fimm dómurum skiluðu sératkvæði

Í sératkvæði Bjargar Thorarensen og Benedikts Bogasonar, forseta Hæstaréttar, var fallist á niðurstöðu óbyggðanefndar og körfu ríkisns um sýknu:

„Við tökum undir þá lýsingu í atkvæði meirihluta dómenda að niðurstaða um hvort landsvæði telst hafa verið numið í öndverðu og hvort það telst eignarland eða þjóðlenda geti meðal annars ráðist af samanburði við niðurstöður um aðliggjandi landsvæði sem telja verður sambærileg með tilliti til gróðurfars og hæðar yfir sjávarmáli. Þetta er þó aðeins einn af mörgum þáttum í heildarmati en kemur ekki í stað kröfu um að efnislega áþekkar heimildir séu til stuðnings eignarhaldi á samliggjandi landsvæðum.“

Þau töldu landssvæðið hafa verið notað til upprekstrar búfjár og réttindi Reykholtskirkju fólgin í óbeinum eignarréttindum. Þar að auki væri samanburður við aðliggjandi svæði „aðeins einn af mörgum þáttum í heildarmati en kemur ekki í stað kröfu um að efnislega áþekkar heimildir séu til stuðnings eignarhaldi á samliggjandi landsvæðum.“

Þar sem ekki nýtur við styrkari heimilda um að Þóreyjartungur hafi upphaflega verið hluti af landnámsjörðinni Hrísum og beinn eignarréttur að landinu hafi með henni færst á hendur annarra geta áþekkir staðhættir þó ekki einir sér ráðið úrslitum til staðfestingar því að um eignarland stefndu sé að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert