Ómar Friðriksson
„Við höfum alltaf sagt að kjarabætur koma í fleiri formum en í launaumslagið. Hins vegar er það náttúrlega ekki hlutverk seðlabankastjóra að leggja línurnar fyrir kjaraviðræður. Það er nokkuð sem við gerum á okkar lýðræðislega vettvangi,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ þegar borin eru undir hana ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í viðtali við ViðskiptaMoggann í gær.
Þar varaði hann við að ráðist yrði í ósjálfbærar launahækkanir og hvatti til þess að ráðist yrði frekar í stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir þessi ummæli seðlabankastjóra afskaplega skynsamleg, „og ég lít á þetta sem viðvörunarorð til aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda nýrra kjarasamninga. Það er ljóst að við höfum farið í gegnum miklar launahækkanir á undanförnum árum og mikið lengra verður ekki komist að sinni. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að beina sjónum að öðrum þáttum sem bæta lífskjör landsmanna. Seðlabankastjóri hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að húsnæðismarkaðurinn sé fyrst og fremst sá markaður sem við eigum að beina sjónum okkar að. Ég get tekið undir þau varnaðarorð hans,“ segir Halldór.