Minningarskjöldur um Kamban á leið til Íslands

Skjöldurinn. Er nú á leið til Íslands en hvað gert …
Skjöldurinn. Er nú á leið til Íslands en hvað gert verður við hann er óvíst.

Minningarskjöldurinn um rithöfundinn og leikskáldið Guðmund Kamban, sá sem tekinn var niður af húsveggnum við innganginn á fyrrum heimili hans í Uppsalagötu í Kaupmannahöfn, er á leiðinni til Íslands. Hallgrímur H. Helgason rithöfundur, sonur Helga Skúlasonar og Helgu Bachman sem settu skjöldinn upp árið 1990, segir að fjölskyldan viti ekki hvað eigi að gera við hann.

Hver veit nema skjöldurinn endi á Þjóðminjasafninu sem vitnisburður um „slaufunarmenningu“ samtímans?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur, sem fyrir nokkrum árum dró fram heimild um ábyrgð Kambans á því að nágranni hans, Jacob Thalmay, var handtekinn og sendur í fangabúðir nasista í Þýskalandi þar sem hann lést, telur nú að heimildin sé ekki traust. Heimildarmaðurinn hafi hugsanlega ruglað Kamban saman við annan mann. Hitt stendur óhaggað að Kamban kom stundum í höfuðstöðvar nasista í Kaupmannahöfn en þangað sótti hann á sex mánaða tímabili styrktarfé til rannsókna á íslenskum sölvum. Kann að vera að þær heimsóknir hafi vakið athygli dönsku andspyrnuhreyfingarinnar á honum.

Sýndi andstöðu við gyðingaofsóknir

Hallgrímur H. Helgason fjallar um þetta mál í færslu á Facebook fyrr í vikunni og segir: „Ég hef svo sem aldrei verið tiltakanlega viðkvæmur fyrir arfleifð Guðmundar en ef þetta hefði reynst satt hefði maður óneitanlega litið á hann sem hálfgert úrhrak manna. Vilhjálmur virðist hins vegar hafa fallið frá skoðun sinni og telja nú að Kamban hafi engan þátt átt í afdrifum Thalmays. Það er óneitanlega miklum mun geðfelldari tilhugsun og meira í samræmi við kynni manns af Kamban að öðru leyti.“

Hallgrímur gerði ásamt Viðari Víkingssyni sjónvarpsmynd um Kamban sem sýnd var 1988. Ræddi hann þá við dóttur Kambans, Sybil, og spurði hana út í orðróm um nasisma hans. „Hún kvaðst alls ekki geta lagt trúnað á að hann hefði verið nasisti og tiltók meðal annars að hann hefði gert sér far um að setjast ítrekað á almenningsbekki í Þýskalandi sem voru merktir gyðingum einum, til að sýna andstöðu við gyðingaofsóknir nasista. Fleira í sama dúr tíndi hún til,“ segir Hallgrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert