Ekki kemur til greina að Íslendingar þurfi að sætta sig við að álag á heilbrigðiskerfið, af ýmsum ástæðum, sé notað sem réttlæting fyrir viðvarandi skerðingu á réttindum og athafnafrelsi. Þetta er mat Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ráðherrra ferðamála, atvinnu- og nýsköpunarmála, sem telur tímabært að stíga skrefið til fulls og aflétta sóttvarnatakmörkunum hér á landi. Þórdís fjallar um afléttingar í grein í Sunnudagsmogganum í dag. „Stjórnvöld þurftu í einhverjum skilningi að fá frelsi fólks að láni. Það kom hins vegar aldrei annað til greina en að skila því aftur til réttmætra handhafa, fólksins sjálfs,“ segir Þórdís Kolbrún.
Fundað var um ástandið á bráðamóttöku Landspítalans í gær en mikið álag hefur verið þar að undanförnu. Bæði settur forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, og Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, sögðu í kjölfar fundahalda að spítalinn ætti að vera í stakk búinn að takast á við tilslökun á sóttvarnaaðgerðum þrátt fyrir álag. „Covid-sjúklingar fara ekki mikið í gegnum bráðamóttökuna svo að það mun ekki hafa áhrif þar,“ sagði Sigríður.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að allar forsendur væru til að halda áfram í tilslökunum. Hann fundaði einnig með stjórnendum Landspítalans í gær. Núverandi sóttvarnatakmarkanir renna út á miðvikudaginn í næstu viku.