Í áfalli yfir sektinni

Teppasalinn Alan Talib sem hefur verið að gert að greiða …
Teppasalinn Alan Talib sem hefur verið að gert að greiða þriggja milljóna stjórnvaldssekt.

„Ég er í mjög miklu áfalli og á sama tíma mjög ringlaður,“ segir Alan Talib í samtali við mbl.is. Auglýsingar hans á teppum eru að mati Neytendastofu villandi og var honum bannað í dag að auglýsa áfram með sama hætti.

„Þegar ég hugsaði um Ísland og að hefja starfsemi hér á landi hélt ég að á Íslandi væri opinn og frjáls markaður. Þetta er eitthvert lýðræðislegasta og ótrúlegasta land í heimi,“ segir Alan og bætir við að fólkið sem hann hafi hitt fyrir hér á landi hafi verið frábært. 

„Fyrir hvað?“

„Við fengum einhverja hæstu sekt eða jafnvel hæstu sekt í sögu landsins og það kemur mér verulega á óvart,“ segir Alan en fyrirtæki hans, Cromwell Rugs ehf., hefur verið gert að greiða þrjár milljónir í stjórnvaldssekt.

„Og fyrir hvað? Fyrir að selja teppi? Fyrir að selja handgerð persnesk teppi á afsláttarverði?“ spyr Alan og bendir á að hann sé ekki að selja vopn eða eiturlyf eða leikföng með eiturefnum eða nokkuð sem geti haft slæm áhrif á neytandann. 

Bannað að auglýsa með sama hætti

Auk sektarinnar var fyrirtækinu bannað að viðhafa viðskiptahætti sína og er þeim því óheimilt að auglýsa með þeim hætti sem hefur verið gert. Alan segir þetta vera í fyrsta sinn á landinu sem slíkri neyðarákvörðun um bann við auglýsingum hafi verið beitt. 

Þá segist hann mjög undarandi á því hversu langt Neytendastofa gekk í þessu máli og honum hafi ekki gefist kostur á að útskýra mál sitt fyrir henni.

„Þau gáfu okkur einn dag til að svara fyrir auglýsingarnar og að ef við svöruðum ekki innan þess tíma væru auglýsingarnar okkar ólöglegar. Þetta hefur aldrei áður komið fyrir í þessu landi. Ofan á þetta er afgangur teppanna fastur í tollinum af ástæðum sem ég þekki ekki,“ segir Alan. 

„Ég veit að það eru ákveðnir hlutir í auglýsingunum sem gefa efni til spurninga en við útskýrðum þetta fyrir fólki.“

Salan á teppunum var afar góð að sögn Alans Talibs.
Salan á teppunum var afar góð að sögn Alans Talibs. mbl.is/Óttar Geirsson

Alan segist hafa gefið Neytendastofu öll þau svör sem hún hafi leitað eftir. Hann segist hafa svarað því játandi að hann hafi áður selt þessi teppi og hann hafi framvísað pappírum því til staðfestingar. Þá segist hann einnig hafa útskýrt krísuna sem á sér stað í teppaheiminum vegna kórónuveirunnar og að auðvelt sé að afla sér upplýsinga um það á netinu. 

„Það vita allir um Covid, það vita allir hvaða áhrif Covid hefur og það er ekki eins og það komi á óvart eða að við séum að benda á eitthvað af handahófi,“ segir Alan.

Aldrei upplifað annað eins

Hann segir að sér líði eins og hann sé mjög óvelkominn á Íslandi.

„Er um neytendavernd að ræða eða er eitthvað annað í gangi?“ spyr hann og segist í áfalli yfir því hvernig komið hafi verið fram við hann.

„Ég hef stundað viðskipti með teppi í 25 ár og er af fjórðu kynslóð teppasölumanna og ég hef aldrei lent í neinu í líkingu við þetta,“ segir hann. Viðbrögð Íslendinga við teppunum hafi verið ótrúlega góð.

„Viðskiptavinir voru ánægðir. Við erum að selja þeim mjög góð teppi á rosalega góðu verði og þeir hafa tekið okkur ótrúlega vel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert