Vettvangsathugun á Hótel Borgarnesi á morgun

Frá fundi undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis.
Frá fundi undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar fer í vettvangsathugun á Hótel Borgarnes á morgun, þar sem talning atkvæða fyrir Norðvesturkjördæmi fór fram eftir síðustu alþingiskosningar.

„Við ætlum að fara á staðinn og skoða aðstæður. Við höfum auðvitað fengið greinagóða lýsingu frá lögreglu en við viljum skoða þetta sjálf. Það er öðruvísi að sjá þetta með eigin augum,“ segir Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar.

Nefndinni hafa nú alls borist 12 kærur og varðar meirihluti þeirra ágalla í talningu í Norðvesturkjördæmi. Gagnaöflun vegna rannsóknarinnar stendur enn yfir og mun nefndin funda daglega í þessari viku.

Fyrir helgina fékk nefndin gögn frá lögreglu en að sögn Birgis þarf fleiri púsl í myndina áður en hægt er að taka afstöðu til þeirra kæruefna sem hafa komið fram.

Er nú á döfinni að funda með fulltrúum úr yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis, umboðsmönnum flokka og einstaklingum sem gætu varpað ljósi á einstaka þætti í atburðarrásinni sem hafa orðið tilefni af þeim kærum sem nefndin er að fást við.

„Við erum að raða saman púslunum til að fá heildarmyndina,“ segir Birgir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert