Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sérstaka flýtimeðferð til uppbyggingar 3.000 íbúða í Reykjavík var felld á fundi borgarstjórnar í dag. Þar var lagt til að byggðar yrðu 3.000 íbúðir í Keldnalandi, Keldnaholti, Úlfarsárdal og á BSÍ-reit.
Eyþór Arnalds Laxdal, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir það hafa komið sér mest á óvart að borgarfulltrúar meirihlutans hafi verið í afneitun um þær tölur sem minnihlutinn hafi lagt fram.
„Það er engu líkara heldur en að meirihlutinn kannist ekki við þær tölur sem eru á markaðnum. Við erum að sjá 75% færri íbúðir til sölu í september á þessu ári heldur en fyrir tveimur árum síðan í Reykjavík. Auk 30% fækkunar í íbúðum sem eru að skila sér inn á markaðinn. Þetta er eins og sagt er á ensku: „Perfect storm“ en í umræðunni var eins og þau teldu að það væri blankalogn,“ segir í Eyþór í samtali við mbl.is.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gaf lítið fyrir tillöguna þegar mbl.is náði tali af honum í gær og sagði hana „hefðbundið pólitískt útspil“ fremur en raunhæfa tillögu að úrbótum á húsnæðismálum í borginni.
Á fundinum í dag gaf Eyþór lítið fyrir þess háttar rök á fundinum í dag: „Brýn þörf er á að fara í uppbyggingu hagstæðum byggingarreitum í Reykjavík. Tillaga um 3.000 íbúðir í Úlfarsárdal, Keldur og við BSÍ er hóflegt fyrsta skref til að vinda ofan af skortsstefnu sem hefur leitt til hærri húsnæðiskostnaðar í Reykjavík.“
Dagur sagði ekki unnt að flýta tillögum á uppbyggingu íbúabyggðar nema að framkvæmdum á borgarlínunni yrði flýtt: „Tilkoma borgarlínunnar gerir okkur kleift að þróa borgina á nýjan, spennandi og grænan hátt. Við erum með fjölda svæða sem eru næst í framkvæmd og sum hver búin að vera í skipulagi árum saman. Það er mjög mikilvægt að allir sameinist um að þróa og byggja hratt.“