Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir skynbragð og afstöðu íbúa til eldgosavár oft mesta og stærsta óvissuþáttinn í áhrifum eldgosa.
Þetta kom fram í erindi sem Þorvaldur hélt á námsstefnu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í dag.
Þorvaldur bendir á að skipulag og áætlunargerð séu mikilvægar forvarnir:
„Eitt af því sem við þurfum að gera er að átta okkur á hvar séu líklegustu gosstaðir á landinu og hver sé afstaða þeirra til mikilvægra innviða og þéttbýlis. Við getum bæði notað það til að plana byggðarskipulag og til að plana viðbrögð.“
Þá sýndi hann spálíkan sem hefur verið þróað til þess að reikna út hvert hraun sé líklegast til að renna.
„Það er ekki að segja okkur hversu útbreitt hraunið muni verða eða hve mikið land þau þekja heldur bara hvert sé líklegasta leiðin sem það myndi fara. Það er líka það mikilvægasta sem við þurfum fyrir viðbragðið. Ef við vitum að gosið er hér þá getum við sett það inn í prógrammið og þá getum við fundið út hver líklegasta rennslisleiðin er og út frá því hversu hratt það er að fara getum við sagt: „Þið hafið tvo eða tíu tíma eða tvær eða þrjár vikur“.“
Þorvaldur sagði að hættu af eldgosum megi annars vegar skipta í beina og óbeina vá. Bein vá sé hættulegri en sú óbeina sé frekar afleidd.
Hraunið sjálft sé bein vá en áhrifa þess gætir oftast nærri upptökum. En á Íslandi getur hraun runnið allt að 100 kílómetra frá þeim.
„Þannig að svæðin sem eru innan við hundrað kílómetra þurfa að hafa áhyggjur af þessu,“ sagði Þorvaldur á ráðstefnunni sem fór fram á Icelandair Hotel Reykjavik Natura og lauk í dag.
Hann benti á að hraunið eyðileggi það sem standi í vegi fyrir þeim, geti stíflað ár og valdið flóðum eða breytt rennslisfarvegum. „Svo er það jákvætt líka, þau búa til nýtt land,“ sagði Þorvaldur og benti á að eina ástæða þess að Garðsskagi sé tengdur meginlandi sé vegna Þráinsskjaldar sem tengi skagann við landið.
Gjóskufall er önnur vá.
„Gjóskan er ekki bundin við helsta nágrenni eldstöðvanna heldur getur hún farið mjög langt. Nærliggjandi hefur hún bein áhrif en þegar lengra er farið eru það frekar afleidd áhrif og mengun kannski meira vandamál en beint gjóskufall.“
Gjóskufallið getur haft margvísleg áhrif á þéttbýli og mannabústaði. Ef það er í miklu magni geta hús hrunið en innöndun þess er líka afar skaðleg. Þá getur það slegið út rafmagn leggist hún á rafmagnslínur auk þess að trufla flugumferð.
Þá eru ónefndar hinar óbeinu vár. Þar á meðal aurflóð, skriður og berghlaup sem getur hafist þegar það rignir á mikla gjósku nærri gosstöðvum sem fer þá á hreyfingu og getur runnið niður í þéttbýli.
Önnur óbein vá eru þær gastegundir sem komi upp úr jörðinni. Þar á meðal koltvíoxíð, brennisteinn, klór og flúor en veðurfarsáhrif vegna þeirra eru oft á hnattrænum skala. Þá geta þessar gastegundir myndað brennisteinsmóðu sem dregur orku sólarljóssins með þeim áhirfum að yfirborð jarðar kólnar og veðurfar breytist.