Miðað er við að formenn stjórnarflokkanna nái saman um útlínur endurnýjaðs stjórnarsamstarfs ekki síðar en um helgina.
Þá tekur við stutt hlé meðan tveir formannanna fara af landinu í embættiserindum, Katrín Jakobsdóttir á loftslagsráðstefnuna í Glasgow og Sigurður Ingi Jóhannsson á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Gert er ráð fyrir að eiginleg vinna við stjórnarsáttmála geti hafist þegar þau snúa aftur.
„Mín tilfinning er sú að það sé ekkert eftir sem ekki er hægt að finna lausn á,“ sagði stjórnarliði í samtali við Morgunblaðið í gær.
Ríkisstjórnarfundur fór fram í Ráðherrabústaðnum í gær, en sjálfstæðismenn og framsóknarmenn héldu einnig þingflokksfundi, þar sem formenn flokkanna ræddu stöðu viðræðnanna. Vinstri græn hafa boðað til þingflokksfundar í dag.
Stjórnarþingmenn segja að lítið nýtt sé að frétta af viðræðum formannanna. Þar ríki enn ágreiningur um ýmis vel þekkt deiluefni flokkanna, svo sem rammaáætlun, friðlýsingar og hálendisþjóðgarð, en einnig voru flóttamannamál nefnd til sögunnar. „Þetta eru mál sem þarf að leysa og er ekki hægt að ýta á undan sér,“ sagði einn sjálfstæðismanna. „Það eru svona mál sem sprengja ríkisstjórnir ef menn semja ekki um þau fyrirfram.“
Þingmaður Vinstri grænna tók í sama streng, en sagði að þótt þetta væru erfið mál, þá væru þau komin á góðan rekspöl og engin ástæða til þess að ætla annað en að formennirnir næðu málamiðlun um þau.