Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nefndarmaður í undirbúningskjörbréfanefnd, segir að atkvæði það sem var flokkað sem autt en átti að vera greitt Framsóknarflokknum hafi í reynd verið án merkingar við listabókstaf. Eina merkingin sem hafi verið á atkvæðinu hafi verið ein yfirstrikun yfir frambjóðanda Framsóknarflokksins.
Inga greindi fyrst frá þessu á Útvarpi Sögu en staðfesti frásögnina í samtali við mbl.is. „Það var ekkert X, bara strikað yfir eitt nafn.“
Þannig atkvæðið var autt í reynd?
„Ég var að spyrja þau út í þetta því auðvitað spyr maður út í svona. Í reynd þá segja þau að svona lagað hafi verið tekið gilt í þeirri línu sem yfirstrikunin átti sér stað. Ég sagði nú bara að ég hefði sjálf sett þetta í ógild atkvæði því ég hélt að meginreglan væri sú að setja kross við þann flokk sem þú ætlar að kjósa. Þú gætir alveg eins verið að strika yfir einhvern í öðrum flokkum sem þér væri meinilla við. Þetta þarf ekki að þýða að þetta er það sem ég vil, því ef ég myndi vilja þetta af hverju setti ég ekki bara x í reitinn?“
Inga telur þetta breyta eðli málsins að einhverju leyti: „Þetta er ekki svona slétt og fellt eins og er alltaf verið að setja fram í fjölmiðlum,“ segir Inga og bætir við: „Það er alltaf verið að búa til einhverjar sögur.“
Hún er ánægð með störf nefndarinnar og stolt af því að fá að taka þátt í ferlinu. „Við erum ofboðslega samstíga og erum að vinna vel saman, eða það finnst mér allavega.“
Formaður undirbúningskjörbréfanefndar, Birgir Ármannsson, hefur lýst því yfir að ætlunin sé að klára meðferð málsins í næstu viku. Inga segist hafa bundið vonir við að klára málið í dag en að það muni að teygja sig að minnsta kosti fram í næstu viku.