Bandarískir jarðfræðingar þurftu frá að hverfa

Svona var staðan við Dettifoss í morgun.
Svona var staðan við Dettifoss í morgun. Ljósmynd/Jökulsárgljúfur

Hópur jarðfræðinga frá Bandaríkjunum sem ætlaði að skoða Dettifoss í morgun þurfti frá að hverfa vegna ófærðar á nýja veginum milli Dettifoss og Vesturdals við Jökulsárgljúfur.

Að sögn Kristínar Gunnarsdóttur, yfirlandvarðar Jökulsárgljúfurs, var rúta jarðfræðinganna ekki á nagladekkjum og komust þeir því ekki eftir veginum vegna mikillar snjóþekju sem þar er. „Ég held að þau hafi hætt við Dettifossferðina,“ segir hún.

Erfitt er fyrir hefðbundna bíla að komast báðar leiðirnar að fossinum vegna mikillar snjóþekju.

Ljósmynd/Jökulsárgljúfur

Vantar fast plan vegna ruðnings

Spurð segir hún veginn ekki vera kominn á fast plan varðandi snjóruðning en til stóð að hann yrði heilsársvegur. Vegurinn var malbikaður og hækkaður upp og er hluti af Demantshringnum svokallaða sem var opnaður í fyrra. „Hann er mjög góður ef honum er haldið opnum,“ segir Kristín.

Hún segir allra veðra von á þessum tíma fyrir norðan. Sjö bílar voru við Dettifoss í morgun en rútuferðum hefur fækkað að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert