Hækka hlutfall grænna fjárfestinga verulega

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. ljósmynd/Almenni lífeyrissjóðurinn

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir hlutfall grænna eigna sjóðsins geta orðið allt að 8% af heildareignum árið 2030 ef allt gengur eftir. 13 íslenskir lífeyrissjóðir tilkynntu í dag að þeir myndu verja 4,5 milljörðum bandaríkjadala í grænar fjárfestingar á næstu níu árum.

Viljayfirlýsingin var kynnt í morgun á COP26, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, í Glasgow í Skotlandi en Gunnar segir hlutdeild Almenna lífeyrissjóðsins í þessari fjárhæð nema 300 milljónum Bandaríkjadala. Það er mikið fé en framboð grænna fjárfestinga á Íslandi er takmarkað.

Meirihluta fjármunanna varið erlendis

„Ég reikna með að fjárfestingarnar verði mest erlendis en þó einnig innanlands. Í þessu verkefni hjá íslensku lífeyrissjóðunum eru grænar fjárfestingar metnar tiltölulega þröngt og eingöngu fjárfest í hlutafé og skuldabréfum fyrirtækja þar sem meginstarfsemi er í endurnýjanlegri orku ásamt skuldabréfum annarra fyrirtækja sem gefin eru út undir grænum ramma,“ segir Gunnar.

Sjóðurinn á einhverjar eignir sem flokkast sem grænar en þetta mun auka hlutdeild þeirra í eignarsafni sjóðsins svo um munar: „

Núverandi eignir Almenna lífeyrissjóðsins undir þessari skilgreiningu eru um 76 milljónir Bandaríkjadala sem jafngildir tæplega 3% af heildareignum. Viljayfirlýsing hljóðar upp á 300 milljónir dala til ársins 2030 og miðað við áætlun um vöxt safna þá gæti hlutfallið orðið um 7-8% árið 2030 en það er þó háð mörgum breytum.“

Munu horfa til jarðvarma og sjálfbærra orkugjafa

Gunnar segir þessar fjárfestingar ríma vel við ávöxtunarkröfur sjóðsins en einnig samfélagslegar skuldbindingar hans:

„Við fjárfestingar samkvæmt þessu samkomulagi verður horft til verkefna sem nýta jarðvarma en einnig er stefnan að styðja við aukna notkun annarra sjálfbærra orkugjafa með það að markmiði að stuðla að aukinni notkun hreinnar orku í samgöngum og atvinnustarfsemi. Mikil eftirspurn er eftir lausnum á þessu sviði og því er margt sem bendir til að þær geti skilað góðri langtímaávöxtun samfara því að fjármunir sjóðfélaga nýtast til góðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert