Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að lögreglustjóranum á Suðurnesjum sé heimil rannsókn á rafrænu efnisinnihaldi Samsung-snjallsíma sem lagt var hald á 23. október síðastliðinn.
Heimildin nær til leitar og skoðunar á þeim rafrænu gögnum sem síminn kann að geyma.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að 23. október hafi lögreglu borist tilkynning um að kærði væri ógnandi við annan mann, eða brotaþola sem sagði kærða hafa elt hann og hótað ítrekað að undanförnu. Væri það vegna þess að kærði telur að hann hafi verið að reyna við fyrrverandi kærustu hans.
„Kvaðst brotaþoli hafa fengið frá kærða fullt af skilaboðum, raddskilaboðum, Facebook skilaboðum og fleira með hótunum en kærði hefði talað um að drepa hann, hótað honum líkamsmeiðingum og fleira en áreitið frá kærða hefði verið það mikið að hann hefði lokað fyrir Facebook skilaboð frá kærða,“ segir í úrskurði héraðsdóms.
Einnig sagði brotaþoli að eftir að hann hringdi í lögreglu 23. október hefði maðurinn farið úr bifreið sinni að bifreið hans, stokkið síðan upp á stigabrettið á vörubifreið hans, teygt sig inn um rúðuna og slegið hann 7 til 8 sinnum. Kærði var handtekinn skammt frá vettvangi.
Fram kemur að kærði hafi hlotið tvo dóma á síðasta ári í héraðsdómi. Hann hafi unað öðrum þeirra en áfrýjað hluta þess síðari sem sneri að íkveikju í bifreið. Hann játaði aftur á móti þann þátt málsins sem sneri að ofbeldi í nánu sambandi gagnvart barnsmóður sinni, börnum þeirra og dóttur hans og brotum gegn barnaverndarlögum.
Lögreglan hefur rökstuddan grun um að síminn sem var haldlagður hafi að geyma samskipti, myndir og fleiri upplýsingar sem gætu skipt miklu máli fyrir rannsókn og dómsmeðferð framangreindra mála.