Viðar Þorsteinsson, sem sagði af sér sem framkvæmdastjóri Eflingar í gær, segir ekki hafa verið gengið nægilega langt í að endurheimta stéttarfélagið til félagsmanna. Hann segir fyrrverandi starfsmenn hafa farið af stað með rógburð í fjölmiðla og ofbeldismenningu eftir að Sólveig og B-listi hennar tók við félaginu eftir kosningar félagsins 2018.
Hann segir að með þessu hafi komist af stað umræða um að félagið væri að brjóta á kjarasamningsbundnum rétti fólks en það hafi þau gert í slagtogi með Láru V. Júlíusdóttur sem Viðar segir af mörgum metna einn færasta vinnumarkaðslögfræðing landsins.
Þetta kom fram í viðtali við hann í Kastljósi ríkisútvarpsins í kvöld.
Þannig hafi sú umræða komist af stað um að hann og Sólveig brjóti á réttindum starfsmanna sem hafi haft mikil áhrif á umræðu um félagið. Hann segir reynslu stórs kjarna starfsfólks á vinnustaðnum hafa mótast af þessu máli og að það hafi sótt í það þegar það komu upp vandamál.
Þó þau mál væru auðleysanleg var „farið í þessa menningu sem var komið á fót strax 2018. Þú ferð fram með ásakanir og sakar um kjarasamningsbrot“.
Hann segir þá ofbeldismenningu sem þrífist innan félagins mega rekja til þess að ekki hafi verið gengið nægilega langt í að endurheimta félagið til félagsmanna. Trúverðugleika félagsins sé haldið í gíslingu af starfsfólkinu sem sé tilbúið að setja formanninn í þá stöðu að þar sé verið að fremja ofbeldi og kjarasamningsbrot.
„Við höfum verið svipt þeim trúverðugleika sem við þurfum að hafa til þess að geta rætt um raunveruleg kjarasamningsbrot og raunveruleg vandamál sem Eflingarfélagar úti á vinnustöðunum verða fyrir.“
Það sé meginástæða þess að hann og Sólveig geti ekki leitt félagið lengur.