Tóku á rás undan fréttamönnum

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, nýr formaður Eflingar, yfirgefur stjórnarfund fyrr í …
Agnieszka Ewa Ziól­kowska, nýr formaður Eflingar, yfirgefur stjórnarfund fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Eflingar og nýr formaður félagsins, Agnieszka Ewa Ziól­kowska, neituðu að gefa sig á tal við fjölmiðla að stjórnarfundi loknum fyrr í dag. Tók Agnieszka á rás fram hjá fréttamönnum, ásamt fleiri fundargestum, þegar þeir leituðu viðbragða hjá henni.

Fjölmiðlar höfðu beðið fregna frá fundinum í húsakynnum Eflingar frá því að fundur hófst klukkan eitt í dag.

Voru fjölmiðlar ítrekað beðnir um að yfirgefa bygginguna. Meðal annars kom til tals að kalla til lögreglu.

Beðið eftir lyftunni.
Beðið eftir lyftunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lyftan kom ekki nógu fljótt

Þegar fundi lauk tóku stjórnarmenn að tínast út og vildi enginn þeirra tjá sig um málefnin sem komu þar fram. Báðust þeir allir undan því að tala við fjölmiðla, að Guðmundi Baldurssyni, undanskildum sem sagði þó einungis að hann gæti ekki greint frá því hvað hefði verið rætt. Einungis að fundurinn hefði verið upplýsandi.

Tilkynning barst þá fjölmiðlum þar sem m.a. var greint frá því að Agnieszka Ewa Ziól­kowska tæki við embætti formanns. Þá tekur Ólöf Helga Adolfsdóttir við stöðu varaformanns. 

Þegar Agnieszka ásamt fleiri stjórnarmönnum yfirgáfu fundarherbergið baðst hún undan því að tjá sig við fjölmiðla og kvaðst ekki telja sig getað svarað neinum spurningum.

Í fyrstu reyndu þau að komast niður á jarðhæð með lyftu, og voru spurð út í fundinn á meðan beðið var eftir henni. Þegar í ljós kom að hún var ekki að koma nógu snögglega, tóku þau á rás fram hjá blaðamönnum og niður stigaganginn.

Ragnar Ólason, aðstoðarframkvæmdastjóri Eflingar, stoppar blaðamenn og ljósmyndara frá því …
Ragnar Ólason, aðstoðarframkvæmdastjóri Eflingar, stoppar blaðamenn og ljósmyndara frá því að mynda í húsi Eflingar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmiðlar beðnir að veita frið

Í tilkynningunni segir að stjórnin biðji fjölmiðla um að veita félaginu frið til að sinna þeim verkefnum sem henni beri að sinna. Hún muni ekki veita nein fjölmiðlaviðtöl að sinni.

„Stjórn Eflingar mun nú einbeita sér að þeim verkefnum sem henni ber að sinna. Formaður mun starfa með skrifstofunni að því að greiða úr þeim vandamálum sem hafa komið upp í starfsemi félagsins. Þrátt fyrir þann ágreining sem ratað hefur í fjölmiðla eru stjórn og starfsfólk einhuga í því að tryggja þjónustu við félagsmenn Eflingar.“

Agnieszka Ewa Ziól­kowska sést fremst á myndinni yfirgefa fundarherbergið. Hún …
Agnieszka Ewa Ziól­kowska sést fremst á myndinni yfirgefa fundarherbergið. Hún var ekki til í að svara spurningum fréttamanna og tók á rás niður stigaganginn til að forðast frekari spurningar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert