Aðrar reglur um ketti en önnur dýr í þéttbýli

Það er í eðli katta að veiða, m.a. fugla. Hér …
Það er í eðli katta að veiða, m.a. fugla. Hér hefur einn náð sér í skógarþröst. mbl.is/Golli

Engin dýr mega ganga laus í þéttbýli víðast hvar hér á landi nema kettir, að sögn Snævars Arnar Georgssonar, umhverfisverkfræðings á Akureyri. Hann bendir á að hvorki hundar, hestar, kýr né kindur njóti sama frelsis og kettir í þéttbýli. Honum finnst að kattareigendur eigi að lúta sömu reglum og aðrir dýraeigendur, þ.e. að sinna dýrum sínum og að gæta þess að þau valdi öðrum hvorki skaða né ónæði.

Margir hafa sömu reynslu

Snævarr skrifaði grein um lausagöngu katta í Vikublaðið á Akureyri sem birtist 2. júní síðastliðinn.

„Greinin fór á flug og ég fékk almennt jákvæð viðbrögð. Mér bárust stuðningskveðjur víða að af landinu,“ segir Snævarr. Margir hafi haft samband og haft svipaða sögu að segja af samskiptum við kattareigendur. Vogi fólk sér að gera athugasemdir við lausagöngu katta eða biðja kattareigendur að hafa gætur á gæludýrum sínum þá sé því oft mætt með yfirgangi, persónuárásum og jafnvel fúkyrðum.

„Menn vilja ekki missa þau forréttindi að geta látið ketti sína valsa um allt eftirlitslaust. Kattareigendur segja að það sé svo vont fyrir ketti að takmarka frelsi þeirra og að það sé í eðli þeirra að vera frjálsir! En ef það er svona hræðilegt fyrir kettina að setja þeim takmörk þá henta þeir bara alls ekki sem gæludýr í þéttbýli,“ segir Snævarr.

Hann segir kannanir hafa leitt í ljós að meirihluti fólks vilji banna lausagöngu katta. „Það kemur betur og betur í ljós hvað það er hávær minnihluti sem vill ekki bera ábyrgð á gæludýrunum sínum,“ segir Snævarr.

„Ég hef tvisvar vaknað við að það var köttur kominn upp í rúm til mín. Í báðum tilvikum voru kettirnir ólarlausir og ómerktir, sem er bannað hér á Akureyri. Það var kattarskítur fyrir utan dyrnar hjá mér um helgina. Ég hef horft upp á ketti skíta í sandkassa í leikskólum og hef ekki tölu á öllum þeim fuglum sem ég veit að kettir hafa drepið. Ég hef nokkrum sinnum vaknað við kattabreim á nóttunni. Ef hundur héldi vöku fyrir fólki með gelti þá væri tekið snarlega fyrir það,“ segir Snævarr en hann hefur rætt lausagöngu katta við bæjarfulltrúa á Akureyri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert