Um helmingur Íslendinga er hlynntur lausagöngu katta í sínu sveitarfélagi, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Prósents sem framkvæmd var dagana 5. til 11. nóvember.
Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hversu hlynntir eða andvígir þeir væru lausagöngu katta í sínu sveitarfélagi og þeim gefnir fimm svarkostir: mjög hlynntur, frekar hlynntur, hvorki né, frekar andvígur og mjög andvígur.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar veru 36% þátttakenda mjög hlynntir lausagöngu katta, um 14% er frekar hlynntir, um 11% hvorki hlynntir né andvígir, um 15% frekar andvígir og um 24% mjög andvígir.
Þá eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu hlynntari lausagöngu katta en íbúar landsbyggðarinnar.
Þátttakendur á aldrinum 18-24 ára eru hlynntari lausagöngu katta en þeir sem eru 35 ára og eldri auk þess sem 65 ára og eldri eru andvígari lausagöngu katta en þeir sem yngri eru.
Í sömu könnun var einnig spurt að því hvaða gæludýr þátttakendur eiga. Þeir sem eiga kött, eða ketti, eru hlynntari lausagöngu katta en þeir sem eiga hund, eða hunda, önnur gæludýr eða engin gæludýr.
Um er að ræða netkönnun þar sem þátttakendur voru 140 talsins og svarhlutfallið 51%. Gögnin voru vigtuð til að úrtakið endurspeglaði álit þjóðarinnar og tillit tekið til kyns, aldurs og búsetu.