Jakob Birgisson uppistandari segir að mikil óvissa ríki í skemmtanabransanum um þessar mundir er smittölum fjölgar dag frá degi. 200 greindust smitaðir í gær, sem er metfjöldi á einum degi. Hann segir mikið í húfi fyrir skemmtanabransann varðandi sóttvarnaaðgerðir.
Hann segir ljóst að þrátt fyrir að heimilt sé að halda allt að 1.500 manna viðburði eins og takmarkanir segja til um núna sé fólk smeykt við stóra viðburði óháð þeim reglum sem í gildi eru.
Mikið sé búið að vera um afbókanir á næstu vikum samkvæmt Jakobi og eru fjargiggin aftur orðin vinsæl.
„Núna er verið að afbóka skemmtanir, sem þyrfti ekki að afbóka samkvæmt reglum. Það er bara út af því að það eru það mörg smit og fólk virðist vera óöruggt með það,“ segir Jakob og bætir við að það henti ekki endilega að hafa svo litlar takmarkanir heldur þurfi að finna betra jafnvægi.
„Þeir skemmtikraftar sem ég hef verið að tala við eru mjög stressaðir að það verði ekki gripið til frekari aðgerða strax vegna þess að desember er allur í húfi.“
Hann bætir við að fyrir marga í skemmtanabransanum sé desember enn stærri en nóvember þrátt fyrir að sá mánuður sé einnig mjög stór. Stuðningur stjórnvalda við sviðslistir klárast í lok nóvember svo mikið er í húfi fyrir skemmtanafólk að hægt verði að hafa desembermánuð eins góðan og hægt er.
„Ég mun keyra á fjargiggin núna ef að þetta fer á versta veg, sem er svona það sem að gæti gerst núna allavega miðað við hvernig þetta er. Það er verið að afbóka fullt af giggum og þá verður maður bara að standa keikur í gegnum storminn og keyra á fjargiggin.“
Jakob segir að fjargiggin séu búin að vera vinsæl í gegnum faraldurinn en þá heldur hann gigg í gegnum fjarfundabúnað heima í stofu hjá sér. „Það var mjög skrýtið fyrst og ég í raun og veru bara þráaðist við því, ég ætlaði ekkert að fara út í það, en síðan lét maður reyna á það þegar að buddan kallaði á það.“
Hann segir fjargiggin hafa gengið vel og að hann muni halda þeim áfram og segist vonast til þess að það verði línan sem verði farin.
„Þeir skemmtikraftar sem ég hef verið að tala við eru mjög stressaðir að það verði ekki gripið til frekari aðgerða strax vegna þess að desember er allur í húfi.“