Hertar samkomutakmarkanir stjórnvalda tóku gildi á miðnætti; ekki fleiri en 50 mega koma saman og ekki fleiri en 500 ef notuð eru hraðpróf. Krám og veitingastöðum er gert að hætta að hleypa inn gestum klukkan 22 en allir verða að hafa yfirgefið staðina klukkan 23. Vonir eru á sama tíma bundnar við að þriðja bólusetning muni bæta ástandið.
„Að sjálfsögðu erum við brjálaðir. Auðvitað skiljum við að það þurfi að grípa inn í en okkur finnst súrt að það sé alltaf gripið inn í hjá skemmtistöðum og börum þótt þetta sé á mörgum öðrum stöðum,“ segir Arnar Þór Gíslason, eigandi staðanna Irishman, Lebowski, Dönsku kráarinnar og Enska barsins.
„Maður er ekkert ánægður en við munum vinna með þetta og vonumst til þess að smitin fari niður þannig að við getum jafnvel lengt afgreiðslutímann sem fyrst,“ segir hann og heldur áfram:
„Við þurfum að standa saman og vonumst til þess að aðrir geri það líka, ekki bara barir og veitingastaðir heldur líka veislusalir, brúðkaup, alls konar „leynipartí“ og fólk í heimahúsum. Þótt það sé búið að setja okkur í mánaðarstraff krossum við fingur og vonumst til þess að þetta vari bara í tvær vikur,“ segir Arnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að aðgerðirnar hafi ekki gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna þar sem þær snerti landamærin ekki sérstaklega.
„Þetta hefur fyrst og fremst áhrif innan okkar vébanda á veitingarekstur. Það er vissulega að fara í gang vertíð hjá veitingahúsum og hótelum líka og við vitum ekki á þessari stundu hvort fólk sé tilbúið að fara á jólahlaðborð og í veislur á hótelum sem eru fyrirhugaðar,“ segir hún. Tíminn verði að leiða slíkt í ljós.
Bjarnheiður kveðst vonast til þess að takmarkanirnar hafi ekki áhrif á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. „Við vonumst til þess að þetta komist á réttan kjöl aftur.“