Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist um rúmlega tvö prósentustig frá síðustu fylgismælingu MMR og mælist nú í 60,0%, en síðast mældist stuðningurinn í 57,6%.

Þetta kemur fram í tilkynningu MMR.

Í nýjustu fylgismælingu MMR mældist stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í 22,2% eða tveimur prósentustigum minna en við síðustu Alþingiskosningar. Hann stendur hins vegar nokkuð óbreyttur frá síðustu könnun.

Þá hafa hinir ríkisstjórnarflokkarnir ýmist bætt við sig eða misst fylgi frá síðustu mælingu en Framsóknarflokkurinn tapaði tveimur prósentustigum og stendur nú í 17,5% en Vinstri grænir hafa aukið við sig tveimur prósentustigum og mælast nú í 13,9%.

Þá mældist fylgi Samfylkingarinnar einnig tveimur prósentum hærra frá síðustu mælingu, og stendur nú í 11,1%. Stuðningur við Pírata stendur þó nokkuð óbreyttur frá síðustu mælingu, eða í 12,4%.

Flokkur Fólksins og Miðflokkurinn virðast hins vegar hafa tapað sitthvorum tveimur prósentunum í fylgi miðað við síðustu mælingu, fyrrnefndi flokkurinn mældist nú í 6,2% en sá síðarnefndi í 4,2%.

918 tóku þátt

Könnunin var framkvæmd 10. til 15. Nóvember og tóku samtals 918 einstaklingar þátt í að svara henni, voru allir 18 ára og eldri.

Þátttakendur voru beðnir um að svara allt að þremur spurningum sem vörðuðu stuðning þeirra við stjórnmálaflokkana.

Sú fyrsta var „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru beðnir um að svara „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“ Ef svarið var aftur óákveðið var þátttakandi að lokum spurður „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert