Eldgosið í Geldingadölum hefur notið gríðarmikillar athygli víða um heim. Enda hefur verið fjallað um gosið í netfréttum, á bloggsíðum, samfélagsmiðlum, í prentmiðlum og í sjónvarpi.
Nærri 680 þúsund manns hafa deilt efni frá gosinu á samfélagsmiðlum frá því eldgosið hófst 19. mars síðastliðinn. Uppsafnaður fjöldi lestra/áhorfa í öllum tegundum miðla er yfir 175 milljarðar og auglýsingaverðmæti er áætlað vera rúmlega 49 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tölum frá Cision-umfjöllunarvaktinni sem fylgist með umfjöllun um Ísland fyrir Íslandsstofu.
„Allar þessar greinar og umfjallanir vekja áhuga og athygli á svæðinu,“ sagði Þuríður Aradóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness, sem vinnur með Íslandsstofu. „Þó að það sé ekki í hendi að allt þetta fólk komi hingað í heimsókn þá höfum við tækifæri til að ná athygli þess og nýta okkur þennan áhuga. Öll þessi umfjöllun hefur sett okkur á Reykjanesi á kortið sem áhugaverðan stað til að heimsækja. Við erum ekki lengur bara fyrsta eða síðasta stopp fyrir eða eftir flug. Allt í einu er Reykjanesið orðið staður sem fólkið vill heimsækja og skoða betur.“
Umfjöllunin var langmest í mars. Facebook var með langflestar deilingar samfélagsmiðla eða nærri 629 þúsund. Næst kom Twitter með rúmlega 27 þúsund deilingar og svo Reddit með á 23. þúsund deilinga.
Nærri 155 milljónir lásu hverja af þremur fréttum Yahoo! af gosinu, nærri 800 þúsund manns sáu umfjöllun Good Morning America 21. apríl, ríflega 11 milljónir sáu frétt CBS News 21. mars, nærri 41 milljón sá frétt BBC 22. mars af gosinu, tæplega 20 milljónir lásu frétt Daily Mail af gosinu og yfir 40 milljónir horfðu á frétt CNN af íslenskum strípalingi við gosið þann 25. mars svo fáein dæmi séu tekin.