Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vill engar ástæður gefa fyrir því hvers vegna staða fréttastjóra Ríkisútvarpsins (Rúv.) verður ekki auglýst fyrr en einhvern tíma eftir að Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri lætur af störfum um áramót, eins og óvænt var boðað var í liðinni viku.
Á meðan enginn fréttastjóri er að störfum mun Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri hlaupa í skarðið.
Útvarpsstjóri vill ekkert segja um ástæður þess að uppsagnarfresturinn sé ekki nýttur til þess að auglýsa eftir nýjum fréttastjóra; segir aðeins að það hafi verið ákveðið.
Sex mánaða uppsagnarfrestur er á ráðningarsamningi Rakelar og var tillit tekið til þess í starfslokasamningi, án þess að Stefán vilji nokkuð segja um greiðslur.
Staða fréttastjóra hefur verið eftirsótt, en tólf sóttu um þegar Rakel var ráðin 2014. Þá var Heiðar Örn Sigurfinnsson einnig meðal umsækjenda.