Aðalmeðferð í máli á hendur Ríkisútvarpinu og Helga Seljan Jóhannessyni fór fram í Landsrétti í gær. Í málinu krefst sækjandi, sem nýtur nafnleyndar, þess að ummæli í þætti Kastljóss frá 31. ágúst 2015 í tíu liðum verði dæmd dauð og ómerk, ásamt því að krafist var miskabóta, og að Ríkisútvarpinu verði gert að birta og fjalla um niðurstöðu dómsins í fréttatíma sem og á heimasíðu sinni bæði á íslensku og pólsku eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppkvaðningu eður verði beitt dagsektum.
Helgi og Ríkisútvarpið voru á sínum tíma sýknuð með nokkuð afgerandi hætti í héraði.
Í þættinum sem um ræðir fjallaði Helgi Seljan um heimilisofbeldi og umsáturseinelti og úrræðaleysi kvenna sem fyrir því verða. Sérstaklega var fjallað um nálgunarbönn og gagnsleysi þeirra sem réttarúrræði. Var þar rætt við konu sem lýsti reynslu sinni af heimilisofbeldi um umsáturseinelti eftir skilnað og úrræðaleysi hennar tekið sem dæmi.
Maðurinn sem kærir er fyrrverandi maður konunnar og barnsfaðir hennar. Telur hann að fjallað hafi verið um persónulegar deilur sínar við barnsmóður sína á óvarlegan og óhlutlausan hátt svo að vegið hafi verið að æru hans þar sem sjónum áhorfenda hafi einkum verið beint að ásökunum konunnar á hendur honum um langvarandi áreitni, hótanir, ofbeldi, skemmdarverk og skjalafals.
Maðurinn var hvorki nafngreindur í Kastljósþættinum né voru birtar myndir af honum. Lögmaður sækjanda taldi þó að nóg kæmi fram í þættinum svo að bera mætti kennsl á manninn.
Fram kom í málflutningi að maðurinn sem málið sækir hafi þurft að leita sér aðstoðar geðlæknis vegna mikils þunglyndis í kjölfar umfjöllunarinnar og snerist málflutningur mannsins að mestu um hvort að gætt hafi verið hlutleysis, gengið úr skugga um sannindi framburðar konunnar og brotið á friðhelgi einkalífs mannsins með umfjölluninni.
Í málflutningi mannsins var því haldið fram að umfjöllunin hafi verið gengið lengra en tilefni var til og maðurinn sviptur rétt sínum til þess að vera saklaus uns sekt væri sönnuð.
Verjandi Helga og Ríkisútvarpsins lagði áherslu á nafn mannsins hafi ekki verið birt. Að ekki hafi verið um persónulegar deilur að ræða, heldur heimilisofbeldi og umsátureinelti og hafi úrræðaleysi í málaflokknum verið til umfjöllunar og það varðaði almenning sannarlega.
Þá sagði verjandinn að lögregla hafi í kjölfar umfjöllunarinnar viðurkennt mistök og breytt verkferlum og að málið hafi verið höfðað á hendur stefndu fjórum árum eftir að þátturinn var sýndur. Að maðurinn sem um ræðir hafi ítrekað verið staðinn að ósannindum og tilraunum til afbökunar á staðreyndum.
Einnig benti verjandinn á að manninum hafi boðist að færa fram sín sjónarmið við vinnslu þáttarins en afþakkað það.
Fyrst og síðast tókust lögmennirnir á um hvort að rannsóknarskyldu hafi verið gætt og meðalhófi beitt við vinnu þáttarins sem og mörk friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis.
Einn dómari velti upp þeirri spurningu hvort að ríkari krafa væri almennt gerð til ríkisfjölmiðilsins heldur en annarra einkafjölmiðla þegar að meðalhófi og hlutleysi kemur.