Tækifæri til vindorku á hafi úti við Ísland voru til umfjöllunar á ráðstefnu sem Breska sendiráðið, Bresk-íslenska viðskiptaráðið og Hecate Independent Power stóðu fyrir í Hörpu í gær. Meðal annars var farið yfir hvernig virkja megi orku sem býr í vindinum á hafi úti til lausnar á loftslagsvandanum.
Yfirskrift ráðstefnunnar er The Future of Offshore Wind in Iceland – Climate Change Solutions.
Hecate Independent Power er bresk-bandarískt þróunarfélag sem vinnur að þróunarverkefni sem sem er kallað Kári Energy. Í því felst í að skoða fýsileika þess að setja upp vindorkugarð (e. offshore wind farm) suðaustur af Íslandi. Framleidd orka yrði svo flutt til Bretlands með orkustreng sem mun hvorki koma upp á land á Íslandi né tengjast flutningsneti Íslands.
„Þótt við stefnum að Kára-verkefninu eru tækifæri víðar á Íslandi fyrir þessa tækni. En Kári yrði lyftistöng í atvinnumálum suðaustanlands og búhnykkur fyrir Ísland allt. Fái Bretland með þessum hætti græna orku undan Íslandsströndum stuðlar það að orkuskiptum, minnkandi útblæstri, raforkuöryggi og kemur í stað mengandi orkuframleiðslu. Kári getur verið raunverulegt framlag Íslands til lausnar loftslagsvandans,“ segir Paul Turner, annar framkvæmdastjóra Hecate Independent Power.
„Góðan daginn,“ sagði Dr Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi, þar sem hún flutti opnunarávarp á ráðstefnunni Ráðherrann. lét þar við sitja á íslenskunni og skipti yfir á móðurmál sitt.
Ráðherrann fór hratt yfir feril sinn, en eins og gefur að skilja flytja sendiherrar býsna ört á milli landa.
Hún flutti til að mynda til Kína árið 2009 og segir það hafa verið á mjög spennandi tíma. „Þá var Ólympíuleikunum í Peking nýlokið og mikið um tækifæri í landinu,“ sagði Mathew en þeir leikar ættu Íslendingum að vera eftirminnilegir vegna vaskrar framgöngu silfrustrákanna okkar í handboltalandsliðinu.
„Tækifærin fyrir vindorku voru mikil,“ sagði Mathew, en eins og sjá má í frétt frá árinu 2009 fjölgaði þeim svo hratt að farið var að bera á offramboði.
Vindorka sé ofarlega á lista Breta yfir græn skref í átt að bættu umhverfi en þegar er einn stærsti vindmyllugarður heims undan ströndum Bretlands.
Mawthew fjallaði einnig um áætlun Boris Johnson forsætisráðherra en fyrir akkúrat ári síðan lagði hann fram áætlun að grænni iðnbyltingu; tíu punkta áætlunin eins og Mathew kallaði hana.
Þar stefnir forsætisráðherrann meðal annars að banni við sölu á nýjum bensín- og dísilbílum árið 2030 og aðgerðum varðandi föngun kolefnis. Þessar tíu aðgerðir eru stikur í átt að vegferð Bretlands að kolefnishlutleysi 2050. Sendiherrann kvaðst hlakka til áframhaldandi samstarfs við Ísland í loftslagsmálum.