Yfir 50 smit hafa greinst hjá nemendum og starfsfólki Kársnesskóla en skólinn er lokaður í dag vegna fjölda smita. Skólastjóri segir að þó að ákvörðun um lokun hafi verið erfið hafi hún verið góð í ljósi stöðunnar. Útlit er fyrir að aukið verði í sóttvarnaaðgerðir innan skólans, sem hefur fram til þessa gengið lengra í aðgerðum en reglugerð krefur skóla um, þegar nemendur snúa aftur í skólann.
„Þetta er að mínu mati góð ákvörðun eins og staðan er núna þegar smitum fjölgar í skólanum og okkur finnst við ekki ná tökum á þessu,“ segir Björg Baldursdóttir skólastjóri Kársnesskóla.
„Ég er ofsalega þakklát rakningarteymi og almannavörnum að hafa tekið þessa ákvörðun núna.“
Ekki er ljóst hvort nemendur og starfsfólk geti snúið aftur á sinn vinnustað á mánudag en staðan verður endurmetin á morgun. Aðspurð segir Björg að boðið sé upp á rafræna kennslu eins og hægt er en gripið var til lokunarinnar með skömmum fyrirvara.
„Ákveðið var að fella niður allt skólahald til þess að gefa okkur smá tíma í að skoða hvernig þetta lítur út og fá út úr þeim prófum sem hafa verið gerð og þeim rakningum sem hafa verið í gangi,“ segir Björg. „Við þurfum smá tíma til þess að anda okkur í gegnum þetta.“
Björg segir að fram til þessa hafi gengið mjög vel að halda úti óskertu skólastarfi í Kársnesskóla þrátt fyrir mikinn smitfjölda í samfélaginu.
„Við erum með mikla skipulagningu og kennararnir eru óþrjótandi duglegir að breyta sínum háttum til þess að passa upp á sóttvarnir en það hefur bara ekki dugað til, sérstaklega hvað varðar þessi ungu börn sem eru óbólusett. Þessi veira herjar mjög á þau.“
Eins og fram kom í viðtali við Björgu á mbl.is fyrr í vikunni hefur Kársnesskóli gengið lengra í sóttvörnum en reglugerð heilbrigðisráðherra kveður á um. Aðspurð segir Björg að gripið verði til enn betri sóttvarna þegar börnin snúa aftur í skólann.
„Við erum að teikna upp það sem við sjáum fyrir okkur þegar skólinn opnar aftur. Það er ekki langt til jóla. Við viljum halda þetta út og vera frísk þannig að við erum að teikna upp alls konar aðgerðir þar sem við drögum enn meira úr án þess þó að skerða skóladag nemenda sérstaklega,“ segir Björg og nefnir þar að mögulega þurfi að endurskipuleggja söngstundir og list- og verkgreinar.