„Þetta er slys sem alltaf situr í minni mér og sú hugsun sækir á mig að þarna hefðu bílbeltin ef til vill bjargað mannslífum,“ segir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi. Tvær unglingsstúlkur létust þegar fólksbíll valt á þjóðveginum í Eldhrauni, nokkru fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur, 4. ágúst 2013. Fernt var í bílnum, allt fólk frá Póllandi.
Stúlkurnar voru í aftursæti og köstuðust út úr bílnum í veltunum. Talið er að önnur hafi látist samstundis, en hin lést á vettvangi. Lífgunartilraunir sjúkraflutninga- og björgunarmanna báru ekki árangur. Í framsætum voru fullorðinn karl og kona, sem slösuðust mikið og voru flutt á sjúkrahús með þyrlum Gæslunnar. Konan var móðir annarrar stúlkunnar sem létust, en hin var hér á landi í heimsókn hjá þessu vinafólki sínu.
Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er í dag, sunnudag. Athygli að þessu sinni er beint að mikilvægi notkunar öryggisbelta. Í því efni er þörf á vitundarvakningu. Íslendingar eru í 17. sæti Evrópuþjóða hvað notkun öryggisbelta varðar, en um 7% vegfarenda nota ekki belti samkvæmt vettvangskönnun sem Samgöngustofa lét gera nýlega.
En aftur að slysinu í Eldhrauni, sem varð á sunnudegi um verslunarmannahelgi. Bílnum var ekið í austurátt, hvar hann fór út af slitlaginu á veginum hægra megin. Ökumaður reyndi að bregðast við með því að rykkja bílnum af vegöxlinni og inn á akbrautina. Með því fór bíllinn hins vegar út af veginum og nokkrar veltur og því næst af veginum vinstra megin. Þar kviknaði í bílnum og var fólkinu í framsætum bjargað úr brennandi flakinu. Önnur stúlkan hafnaði skammt frá bílnum og var látin þegar að var komið. Hin kastaðist upp á hraunhól 20-30 metra frá bílnum.
„Sú stúlka var með lífsmarki sem fjaraði út. Aðkoman að þessu slysi var hræðileg,“ segir Elís, sem fór frá Selfossi til rannsókna á vettvangi í Eldhrauni. Á staðinn voru áður komnir tveir lögreglumenn úr héraði, björgunarsveitarmenn, slökkvilið og læknar frá Vík og Kirkjubæjarklaustri.
Samkvæmt hraðaútreikningi sem gerður var í þágu rannsóknar máls var niðurstaðan sú að bílnum hefði verið ekið á að minnsta kosti 114 km/klst en ekki hraðar en 134 km/klst. Áætlaður hraði þegar slysið varð var 124 km/klst. Vegurinn var þurr og veður ágætt.
Málið fór fyrir dóm og var ökumaðurinn dæmdur í skilorðsbundið níu mánaða fangelsi vegna dauða tveggja farþega og stórfelldrar líkamsmeiðingar á farþega í framsæti. Einnig til ökuleyfissviptingar í tvö ár og til greiðslu á öllum máls- og sakarkostnaði, sem var nokkrar milljónir króna.
„Bílbeltin urðu án vafa fólkinu í framsætunum til lífs. Því tel ég rökrétt að álykta að stúlkurnar hefðu lifað hefðu þær líka verið í beltum,“ segir Elís.
Lengri umfjöllun má finna í laugardagsblaði Morgunblaðsins.