Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að halda samstöðu og virða sóttvarnaraðgerðir því annars getum við fengið faraldurinn yfir okkur af fullum þunga og allt farið í óefni. Spítalinn hætti að geta sinnt sjúklingum með viðunandi hætti og mikilvæg starfsemi geti lamast. Hann vonast til að mótmæli, eins og nú eiga sér stað víða um Evrópu, vegna hertra sóttvarnaraðgerða, muni ekki eiga sér stað hér á landi.
„Ég vona svo sannarlega ekki. Íslendingar hafa séð alveg það er sem skiptir máli og ef menn fara að mótmæla og taka ekki þátt, þá fáum við bara faraldurinn yfir okkur. Þá fáum við aðra sviðsmynd með útbreiddum alvarlegum veikindum sem hefur áhrif á alla heilbrigðisþjónustuna við alla hópa. Fólk kemst ekki í aðgerðir eða hvað það nú er sem þarf að gera. Mikilvæg starfsemi lamast, eins og til dæmis hjá Orkuveitunni, rafmagnsveitum og ég veit ekki hvað og hvað. Allt sem við byggjum okkar líf á mun lamast út af útbreiddum veikindum. Þannig fólk þarf aðeins að horfa á þetta,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is
„Eins og staðan er núna get ekki séð að það sé mikið um takmarkandi aðgerðir. Fólk getur gert nánast það sem það vill. Ég held við ættum að horfa á það og ef okkur tekst að ná kúrvunni niður þá eigum við bara að gleðjast yfir því og vera sammála um það.
Tíðrætt hefur verið um að vernda heilbrigðiskerfið og spítalann og þau rök gjarnan gefin fyrir hertum aðgerðum, en aðgerðir voru síðast hertar hér á landi fyrir rúmri viku. Þá aðallega í formi hertra samkomutakmarkana og grímuskyldu. Þá hafði yfirstjórn spítalans kallað eftir hertum aðgerðum í fjölmiðlum.
Aðspurður segir Þórólfur hins vegar erfitt að segja til um það hvort við værum í vægari aðgerum hér á landi ef staðan á spítalanum væri betri; gjörgæslurými fleiri, mönnunarvandi ekki til staðar og hann hefði meira bolmagn til að bregðast við fjölgun smita. Enda séu fleiri þættir sem þarf að horfa til.
„Við sjáum bara hvað er að gerast í öðrum löndum sem eru með meira rými, þau eru líka með takmarkandi aðgerðir. Jú, auðvitað er það meginmarkmiðið að halda spítalanum á floti, að yfirkeyra hann ekki, en við erum líka að reyna að koma í veg fyrir alvarleg veikindi fólks sem getur lent í langvarandi veikindum í kjölfarið. Svo erum við líka að reyna að halda smitunum niðri því með fleiri alvarlega veikum þá bara lamast fyrirtæki. Fólk veikist og kemur ekki í vinnuna og þá lamast starfsemi úti um allt. Allt þetta þurfum við að horfa á, en eins og staðan er núna erum við fyrst og fremst að horfa á spítalann.“
22 einstaklingar liggja nú inni á Landspítalanum með covid-19, þar af þrír á gjörgæslu, allir í öndunarvél. Þórólfur segir mikilvægt að ná þessum tölum niður og bendir á að spítalinn sé enn á hættustigi. „Hann er bara í verulega erfiðum málum þegar á heildina er litið. Við þurfum að reyna að koma tölunum neðar niður. Það er líka fullt af veiku fólki þarna úti. Við erum með 1.700 til 1.800 manns í eftirliti á covid-göngudeildinni og sumir eru ansi veikir. Þannig við erum ekki bara að tala um hvað það liggja margir á gjörgæslu, það er svolítið toppurinn á ísjakanum.“
102 greindust með covid-19 innanlands í gær og hefur smitum farið fækkandi síðustu daga. Smittölur náðu hámarki í faraldrinum hingað til í síðustu viku þegar smit fóru yfir 200 á einum degi.
Þórólfur segir mögulegt að við séum búin að ná toppnum í þessari bylgju þó vissulega séu enn dreifð smit um allt land. „Mér sýnist þetta vera að mjakast niður og kannski er ég að vonast til þess líka, en við þurfum bara að sjá. Við sjáum hvað gerðist í sumar, það tók okkur um mánuð að komast niður í um 50 smit, eða eitthvað svoleiðis, og kannski verður staðan svipuð núna. Það þarf samt ekki mikið að gerast til að við fáum allt í einu kúrvuna aftur upp, hópsmit í einhverjum skóla eða á vinnustað. En heildarþróunin sýnist mér vera sú að þetta sé að mjakast niður.“
Hann segir því ljóst að aðgerðirnar séu að virka og augljóst að fólk sé að passa sig. „Það sem er jákvætt líka er að við sjáum að hlutfall þeirra sem eru í sóttkví við greiningu er aðeins að aukast líka, þannig það eru nokkur jákvæð merki um að kannski sé þetta aðeins að láta sig. En það er kannski fullsnemmt og kannski er þetta óskhyggja, en ég vona að þetta sé raunverulegt.“