Skráð samskipti við heilsugæslustöðvar landsins voru tæplega 2,6 milljónir á seinasta ári sem samsvarar sjö samskiptum á hvern íbúa. Er þar um að ræða viðtöl eða komur á heilsugæslustöðvar, vitjanir, símtöl og rafræn samskipti. Á árinu á undan voru samskiptin samtals 2,2 milljónir eða sex á hvern íbúa. Þetta kemur fram í umfjöllun í Talnabrunni landlæknisembættisins um starfsemi heilsugæslustöðva.
Áhrif kórónuveirufaraldursins voru mikil á starfsemi heilsugæslustöðva á seinasta ári. Um 309 þúsund einstaklingar nýttu sér þjónustu heilsugæslunnar í fyrra eða ríflega 84% allra landsmanna. Er það svipað hlutfall og árið áður. Alls áttu liðlega 223 þúsund einstaklingar viðtal við lækni á heilsugæslustöðvum landsins í fyrra, eða um 61% allra íbúa.
Komur á heilsugæslustöðvar eru skráðar sem viðtöl og kemur fram að samtals voru tæplega 900 þúsund viðtöl skráð á heilsugæslustöðvum á seinasta ári. Það jafngildir tæplega 2,5 viðtölum á hvern íbúa landsins, sem er þó nokkru minna en á undangengnum áratug þegar viðtöl voru á bilinu 2,7 til 2,9 á hvern íbúa. „Aðsókn að heilsugæslustöðvum er nokkuð breytileg eftir staðsetningu þeirra. Þannig voru komur á heilsugæslustöðvar fæstar á Vestfjörðum árið 2020, tæplega 2,3 á hvern íbúa, en flestar á Austurlandi, 3,4 á íbúa [...],“ segir í umfjölluninni.
Þegar samskipti íbúa við heilsugæsluna eru skoðuð eftir mánuðum sést vel hvílík áhrif faraldurinn hafði á starfsemina. Bent er á að heilt yfir fækkaði komum á heilsugæslustöðvar um 15% milli áranna 2019 og 2020 en mestur var samdrátturinn í apríl 2020 þegar um 50% samdráttur varð í komum frá sama mánuði árið áður. „Á hinn bóginn fjölgaði símtölum í heilsugæslunni um 35% árið 2020 miðað við fyrra ár og rafrænum samskiptum um ríflega 82%.“