Ástæða til að hafa áhyggjur af nýju afbrigði

Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítala.
Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítala. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ástæða er til að hafa áhyggjur af nýju afbrigði kórónuveirunnar sem skotið hefur upp kollinum í Suður-Afríku og í Belgíu. Þetta segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítala, í samtali við mbl.is.

„Það vantar auðvitað talsvert mikið af gögnum til þess að við getum skilið til fulls hvað er að gerast en fyrstu gögn um þetta nýja afbrigði gefa klárlega ástæðu til að hafa áhyggjur.“

„Þessum vísbendingum ber að taka alvarlega“

Í Suður-Afríku virðist tiltölulega mikill og hraður vöxtur vera á smitum í fremur lítið bólusettu þýði. Ragreiningar á veirunni sýni að hún sé að taka þar yfir og að henni hafi tekist að breiðast út til nærliggjandi svæða innan Suður-Afríku og síðan áfram til Hong Kong, að sögn Magnúsar.

„Það er auðvitað ástæðan fyrir því að Bretar voru að banna flugsamgöngur á milli landanna. Evrópusambandið virðist svo ætla að fylgja þeirra fordæmi. Svo er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að funda um þetta í dag. Þessum vísbendingum ber að taka alvarlega.“

Hins vegar muni það taka tíma fyrir menn að átta sig nákvæmlega á því hvers eðlis nýi stofninn er. Hvort hann sé meira smitandi, hvort hann valdi meiri veikindum og hvort hann komist undan mótefnasvari eftir bólusetningu eða fyrri sýkingar.

„Þetta eru allt spurningar sem á eftir að svara,“ segir Magnús.

Fyrstu vísbendingar bendi þó til þess að smitstuðull nýja afbrigðisins sé 2 og það þyki áhyggjuefni út af fyrir sig.

„Það þýðir að hver smitaður einstaklingur smitar að meðaltali tvo aðra og þeir smita svo tvo aðra. Þá verður þetta veldisvöxtur mjög fljótt.“

Hugsanlegur eltingaleikur við ný afbrigði

Tíminn mun leiða í ljós hvort nýja afbrigði veirunnar geti fundið sér leið framhjá áður áunnu ónæmi, hvort sem það er eftir bólusetningu eða fyrri sýkingu, segir Magnús inntur eftir því.

„Það er of snemmt að segja en það er vissulega margoft búið að benda á að þessi veira er ekki hætt. Þótt við séum búin að fá nóg af henni er hún ekki búin að fá nóg af okkur. Hún heldur áfram að stökkbreytast og það er að gerast núna.“

Má þá búast við því að fólk verði bólusett í hvert skipti sem veiran stökkbreytist?

„Það er ein sviðsmynd, að hugsanlega verði þetta eltingaleikur við ný afbrigði. Það er alveg klárlega möguleiki á því. Hvort sem það verður þetta afbrigði sem nær flugi og reynist skaðræði eða ekki. Það verður bara að koma í ljós. Það er svolítið í eðli þessara RNA-veira að aðlagast og þróast í ýmsar áttir og það er nákvæmlega það sem er að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert