Flokksfundum Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er nú lokið og samþykktu allir flokkarnir þrír að endurnýja ríkisstjórnarsamstarf flokkanna.
Miðstjórn Framsóknarflokks og flokksráð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna funduðu í allan dag og farið yfir stjórnarsáttmála flokkanna. Höfðu Miðstjórn Framsóknarflokks og flokksráð Sjálfstæðisflokks samþykkt stjórnarmyndunina um fimmleytið í dag, en flokksráð Vinstri grænna samþykkti stjórnarmyndunina um sjöleytið.
Segir í tilkynningu frá Vinstri grænum að 80% flokksráðsfulltrúa hafi samþykkt stjórnarsáttmálann, en á annað hundrað manns sótti fundinn. Þar af voru tæplega hundrað með atkvæðisrétt sem flokksráðsfulltrúar.
Fundurinn var haldinn sem bæði fjarfundur og staðfundur, þannig að VG-fólk allsstaðar að af landinu átti hægt um vik að vera með. „Miklar umræður urðu um stjórnarsáttmálann og var fundur VG lengri en sambærilegir fundir hinna stjórnarflokkanna, enda rík hefð innan hreyfingarinnar að ræða málin vel og lengi,“ segir í tilkynningu VG.
Nokkrar tilfæringar verða á ráðuneytum í hinni nýju ríkisstjórn, en heimildir mbl.is herma að tilkynnt hafi verið heilbrigðisráðuneytið muni falla Framsókn í skaut, ásamt nýju innviðaráðuneyti með samgöngu-, sveitarstjórnar-, húsnæðis- og skipulagsmálum.
Mennta- og menningamálaráðuneytinu verður skipt upp og mun Framsókn fara með skóla- og barnamál. Þá verður uppstokkun á atvinnumálum og mun Framsókn fara með ferðaþjónustu, menningu, skapandi greinar, viðskipti og samkeppnismál.
Vinstri hreyfingin grænt framboð mun stýra forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Sjálfstæðisflokkurinn mun stýra fjármálaráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu og hluta atvinnumála með nýsköpun ásamt háskólamálum.
Fréttin hefur verið uppfærð.