Stjórnarsáttmálinn rímar vel við áherslur flokkanna í kosningabaráttunni að mati Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings. Heilt yfir þykir henni sáttmálinn einkennast af bjartsýni og sóknarhug.
„Það er samhljómur um mikilvægi orkuskipta, draga þurfi úr losun, styrkja nýsköpun og sækja fram í að auka fjölbreytni atvinnulífsins.“
Það sem henni þykir einkennandi fyrir sáttmálann er það hve mikið er lagt upp úr samráði við hagsmunaaðila.
Í þeim hluta sáttmálans sem lýtur að sjávarútvegi kemur fram að skipuð verði nefnd hagsmunaaðila og annarra til að yfirfara lög um stjórn fiskveiða. Mikilvægt sé að ná sátt um þau mál.
Það vakti athygli Stefaníu að í þeim hluta sem fjallar um vinnu við breytingar á stjórnarskrá, sé talað um að skipa þurfi nefnd sérfræðinga, sem ekki var kveðið á um í fyrri stjórnarsáttmála þessara flokka.
Í fyrri stjórnarsamstörfum hafi verið talað um nefndir með fulltrúum þingflokkanna eða þá vísað til almannasamráðs en nú sé fyrst talað um sérfræðinga.
Þá tók hún einnig eftir því að útlendingamál flytjast úr dómsmálaráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Það sé talað um mikilvægi þess að taka vel á móti útlendingum og efla íslenskukennslu.
Talsverð uppstokkun varð á ráðuneytum og málefnum milli þeirra. Stefanía telur þessa endurskipulagningu undirstrika sóknarhug.
„Þetta hljómar ágætlega, en nú þarf að hrinda þessu í framkvæmd og færa þessi verkefni milli ráðuneyta. Það kann að verða hausverkur því þetta eru ekki bara verkefni heldur líka fólk, með skrifborð og tölvur.“
Stefanía tekur ekki undir með formönnum stjórnarandstöðunnar, að Vinstri græn séu raddlaus í hinni nýju ríkisstjórn. Hlutverk þeirra sé ekki síður stórt en áður þó að heilbrigðisráðuneytið færist yfir til Framsóknarflokksins.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin séu burðarráðuneyti, sérstaklega ef ráðast á í endurskoðun á lögum stjórn fiskveiða.
Þá sé einnig búið að efla félagsmálaráðuneytið með því að færa útlendingamálin og vinnumarkaðsmálin þangað.
„Svo er auðvitað Katrín forsætisráðherra.“