„Þetta er eitt mikilvægasta ráðuneytið. Ég óska ykkur velfarnaðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra, eftir að hún afhenti þeim Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni lyklana að mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Þau Áslaug Arna og Einar Daði fengu að gjöf bolla sem á stóð „Það er list að kenna“, auk þess sem þau fengu afhenta í sameiningu bók sem fyrrverandi menntamálaráðherrar hafa ritað um hvað er gott að gera á fyrstu dögum í embætti.
Áslaug Arna tekur núna við sem vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og segir starfið leggjast ótrúlega vel í sig. Mikil tækifæri felist í að taka við ráðuneyti sem er ekki til en það sé búið til í kringum tækifæri framtíðarinnar. Þetta hafi verið gert á hinum Norðurlöndunum og að skýr sýn sé til staðar í stjórnarsáttamálanum.
„Ég fæ að móta það eiginlega alveg frá grunni og í því felast tækifæri sem ekki margir hafa fengið og það finnst mér spennandi,“ segir Áslaug Arna í samtali við blaðamann. Hún bætir við að mest spennandi verði að móta samspil nýrra þátta og „leyfa þessum kröftum að vinna saman og sjá hvort við getum ekki leyst eitthvað meira úr læðingi“.
Spurð segist hún kveðja dómsmálaráðuneytið með söknuði. Þangað hafi hún farið inn á „svolitlu spretthlaupi“ þar sem hún sá fyrir sér að vera í tvö ár. „Ég gerði eins mikið og ég mögulega gat til að hafa góð áhrif og gera mikilvægar breytingar á þeim tíma. Ég er ótrúlega sátt við þann tíma,“ segir hún en kveðst vitaskuld sakna góðs samstarfsfólks.
Ásmundur Einar segir gríðarlega spennandi að taka við sem mennta- og barnamálaráðherra. Hann mun annast menntamál barna til 18 ára aldurs en einnig flytjast í ráðuneytið barnamál úr félagsmálaráðuneytinu, þar sem hann var ráðherra, og úr öðrum ráðuneytum. „Það eru gríðarleg sóknarfæri í því að samþætta þetta tvennt, annars vegar menntakerfið og hins vegar þjónusta við börn,“ segir hann og nefnir einnig mikilvægi íþrótta- og æskulýðsmála.
Spurður hvort hann hafi lagt mikla áherslu að halda áfram að vinna í málefnum barna segist hann hafa flutt sig úr Norðvesturkjördæmi yfir til Reykjavíkur vegna þess að hann langaði að vinna áfram að þeim breytingum sem hafa verið unnar í þeim málaflokki. Hann var kjörinn á þing í Reykjavík norður og fékk í framhaldinu að halda áfram með málefni barna. „Það er verið að búa til gríðarlega öflugt barnaráðuneyti, hvort sem þú horfir á æskulýðsmálin, menntunarmálin eða barnamálin sem eru að koma frá öðrum ráðuneytum,“ segir Ásmundur og nefnir að næsta verkefnið sé að klára flutninginn á barnamálunum yfir í ráðuneytið. Það þurfi að gerast frekar hratt.
Í framhaldinu ætlar hann að hitta hin ýmsu hagsmunasamtök og fara yfir stöðu mála.
„Ég hef einsett mér það og gerði það í barnamálunum að vinna mjög náið og þétt með öllum og ég hlakka til þess,“ segir hann og kveðst taka við góðu búi frá fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra.