Segir orkuskipti forsendu umhverfisverndar

Blóm gera kraftaverk. Guðmundur Ingi Guðbrandsson afhendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni …
Blóm gera kraftaverk. Guðmundur Ingi Guðbrandsson afhendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni lyklana að umhverfisráðuneytinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr umhverfis-, auðlinda- og orkumálaráðherra, segir að bæði sé vilji og geta til að taka stór skref í málaflokknum. Hann tók við lyklavöldum að ráðuneytinu í dag úr höndum Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem nú er félags- og vinnumálaráðherra.

Hann segir að á tímum þar sem öll spjót beinast að loftslagsmálum sé ráðuneyti hans eitt það mikilvægasta. 

Guðlaugur Þór afhenti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur lyklana að utanríkisráðuneytinu fyrr í dag.

„Þetta er stóra málið,“ segir Guðlaugur við mbl.is um umhverfismálin.

„Þetta er stóra verkefnið, ekki bara fyrir ráðuneytið heldur þjóðina alla. Við sjáum þær áherslur bersýnilega í stjórnarsáttmálanum og það er engin tilviljun,“ bætir hann við.

Ýjar að því að virkja þurfi meira

Ríkjandi viðhorf í umhverfismálum má segja að séu tvíþætt; umhverfisvernd annars vegar og baráttan gegn loftslagsvánni hins vegar. Nýr ráðherra segir þetta fara vel saman, enda verði að nýta græna orku til þess að vernda umhverfið. Það sé ekki bara pólitískt bitbein hér á landi heldur um allan heim.

„Það liggur bara fyrir og hefur alltaf legið fyrir að ef við ætlum í græna orkubyltingu að þá þurfum við græna og endurnýjanlega orku í þau verkefni. Síðan viljum við gera það með þeim hætti að sem mest sátt sé um það og það er eilífðarverkefni í íslenskum stjórnmálum, en kannski aldrei jafnmikilvægt og nú. Það er í raun ómögulegt að ræða þessi mál nema við ræðum báðar hliðar,“ segir Guðlaugur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka