Svandís segir Willum alltaf geta „hringt í vin“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tekur við lyklum að ráðuneytinu úr …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tekur við lyklum að ráðuneytinu úr höndum Svandísar Svavarsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Til marks um nýja tíma skiptust þau á lyklakorti, sem búið var að útbúa fyrir Willum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, tók í dag við lyklunum að ráðuneyti sínu úr höndum Svandísar Svavarsdóttur, fráfarandi heilbrigðisráðherra.

Til marks um nýja tíma rétti Svandís Willum lykilkort, eins og tíðkast á skrifstofum landsins, í stað þess að eiginlegur lykill gengi hönd úr hönd. 

Við tilefnið sagði Willum Þór við mbl.is að hann væri lítið búinn að koma sér af stað í nýju starfi, enda hafi það borið skjótt að. 

Raunar var það bara í gær sem hann vissi að hann tæki við nýju ráðuneyti. 

„Þetta er mikið starf og krefjandi, málaflokkurinn er bara þess eðlis, mikilvægur og stór á alla mælikvarða. Áskoranir hafa alltaf lagst vel í mig,“ segir Willum og bætir við:

„Ég hef ekki haft tíma til þess að hitta þessa aðila [sóttvarnalækni eða forstjóra Landspítala] en ég hef hitt þá áður tengt öðrum vettvangi. Þetta bar í raun og veru nokkuð brátt að og var ekki staðfest í mín eyru fyrr en á þingflokksfundi í gær. Svo tók við hröð atburðarás, myndun nýrrar ríkisstjórnar, þannig það er margt að melta í einu og ég hlakka til að nýta tímann og hitta allt þetta góða fólk.“

Erfitt ráðuneyti

Heimsfaraldur kórónuveiru geisar enn og því verða verkefni nýs heilbrigðisráðherra ærin, eins og þau voru á liðnu kjörtímabili. 

Aðspurður segir Willum ekki enn hafa rætt við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, en það væri vissulega á ofarlega á dagskrá. 

Willum segist alltaf hafa verið hrifin af blönduðu heilbrigðiskerfi þar sem nýta má krafta hins opinbera og einkaaðila til þess að skapa sem besta umgjörð um þá sem eru hjálparþurfi. Fyrirséð er því að hann muni beita aðeins annarri nálgun en forveri sinn úr röðum Vinstri grænna. 

„Við höfum búið við blandað kerfi lengi,“ segir Willum. „Við höfum ekki lagt það af, við þurfum að nýta alla þekkinguna í kerfinu og það er nú kannski mikilvægast að horfa þannig til þess.“

Skilur sátt við sitt

Svandís Svavarsdóttir sagði við tilefnið að hún gengi sátt frá störfum sem heilbrigðisráðherra undanfarin fjögur ár. Heimsfaraldurinn bæri auðvitað hæst en þó væri hún ánægðust með heilbrigðisstefnu sína, sem fékk víðtækan stuðning í þinginu þvert á flokka. 

„Ég er ánægðust með að hafa komið í gegnum þingið heilbrigðisstefnu, með stuðningi langt út fyrir ríkisstjórnina. Það er stefna sem skiptir miklu máli og er leiðarvísir fyrir allt heilbrigðiskerfið sem verið er að vinna samkvæmt. Verkefni sem tengjast heimsfaraldrinum sá enginn fyrir og voru kannski stærst þegar öllu er á botninn hvolft á liðnu kjörtímabili og því er ekki lokið enn, því miður,“ sagði Svandís við mbl.is. 

Hún sagðist einnig treysta Willum vel í þau verkefni sem bíða hans nú. Hann væri jarðbundinn og góður stjórnmálamaður. 

„Við höfum spjallað saman og munum gera það meira og ég er sérstaklega ánægð með að afhenda honum lyklavöld hér í heilbrigðisráðuneytinu vegna þess að hann er farsæll og vandaður stjórnmálamaður, jarðbundinn og klár. Hann er maður sem óhikað setur sig inn í stór og flókin málefni. En ég sagði honum þó að hann mætti alltaf hringja í vin,“ segir Svandís létt í bragði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert