Gestur sem heimsótti fangelsið Kvíabryggju á sunnudag reyndist smitaður af kórónuveirunni. Þetta staðfestir Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is. Einn fangi er nú í sóttkví en aðrir í svokallaðri smitgát.
„Í kjölfarið þá grípum við til þessara öryggisráðstafanna sem felast í sóttkví og smitgát og að draga úr öllum umgangi í fangelsið eins og við höfum gert þegar smit hafa komið upp í hinum fangelsunum, Litla-Hrauni og Hólmsheiði,“ segir Páll.
Hann segist vonast til þess að tilvikið sé einangrað og að ekkert hafi náð að dreifast frekar. Verið sé að taka sýni af þeim sem að nauðsynlegt er að taka sýni af. Staðan verði síðan metin frá degi til dags.
„Þetta er bara endalaust verkefni og við erum farin að venjast þessu en við tókum þá ákvörðun að loka ekki alfarið fyrir heimsóknir og umgang í fangelsin núna á síðari tímum Covid og erum að reyna að feta eitthvert meðalhóf í því.
Þessi slys geta auðvitað átt sér stað og þá bregðumst við við því og í samráði við sóttvarnalækni.“